Framsókn og flugvallarvinir hafa skipað Gústaf Níelsson, sagnfræðing og yfirlýstan andstæðing byggingar mosku í Reykjavík, sem varamann í mannréttindaráð borgarinnar.Þetta kemur fram á Vísi.is. Þar er haft eftir Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, að allskonar raddir eigi að hljóma í mannréttindaráði borgarinnar.
Gústaf, sem er bróðir Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hann er flokksbundinn þeim flokki og fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks hans.
Í frétt Vísis segir að Gústaf hafi sætt „ harðri gagnrýni fyrir ummæli sín í garð múslíma en á síðasta ári lagði hann til að Ísland bannaði hin íslömsku trúarbrögð og setti þannig fordæmi fyrir alla Evrópu. Í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon í maí síðastliðnum sagðist hann telja mikilvægt að standa vörð um kristin gildi Íslendinga. Þá lýsti hann áhyggjum af því að reist yrði moska í Reykjavík".
Sprengdu upp sveitarstjórnarkosningarar
Átta dögum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 var haft eftir Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, að „á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
réttrúnaðarkirkjuna“. Í viðtali við Vísi sagðist hún hafa „búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“
Í kjölfarið var lýst yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn á Facebook síðu sem bar nafnið „Mótmælum mosku á Íslandi“. Fylgi flokksins jókst mikið þessa síðustu daga fyrir kosningarnar og flokkurinn fór úr því að mælast með án borgarfulltrúa í að ná tveimur slíkum inn í borgarstjórn.
Höskuldur sagði viðbrögðin hafa mátt vera sterkari
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í þættinum Vikulokunum á Rás 1 um liðna helgi að viðbrögð flokks hans við mosku-ummælum Sveinbjargar Birnu fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar hefðu mátt vera sterkari. Eftir á að hyggja hefði flokkurinn átt að bregðast fljótar og ákveðnar við. Hann væri hins vegar þeirrar skoðunar að „Framsóknarflokkurinn muni berjast gegn öllum hugmyndum um mismunun“.