„Með hlýnandi loftslagi skapast ný og spennandi sóknarfæri. Aukin akuryrkja, nytjaskógrækt og fjölbreyttari innlend matvælaframleiðsla er hluti af því að efla íslenskan landbúnað.“ Þetta er á meðal þess sem lesa má í drögum að ályktunum 33. flokksþings Framsóknarmanna, sem fram fer um helgina. Drögin eiga enn eftir að hljóta umfjöllun á flokksþinginu, og gætu tekið breytingum í meðförum þess.
Textinn er samhljóða ályktun um atvinnumál sem samþykkt var á 32. flokksþingi Framsóknarmanna, sem haldið var í febrúar árið 2013.
Þá er ofangreint í samræmi við ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem hann hafði frammi í frétt á RÚV þann 1. apríl síðastliðinn, þar sem hann sá sömuleiðis tækifæri fyrir Ísland vegna loftslagsbreytinga.
Í fréttinni, þar sem forsætisráðherra var að tjá sig um grafalvarlegar niðurstöður Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, sagði hann: „ ...Augljóslega er þetta á heildina litið neikvætt en í því felast þó tækifæri til að bregðast við þróuninni og bregðast sem best við henni og það eru ekki síst tækifæri sem Ísland hefur. [...] Það skortir vatn, orkan verður dýrari, það skortir landrými, þannig að menn gera ráð fyrir því að matvælaverð muni fara hækkandi um fyrirsjáanlega framtíð á sama tíma og þar er sífellt meiri þörf fyrir matvælaframleiðslu vegna þess að eftirspurnin er að aukast. Þannig að í þessu liggja tvímælalaust mikil tækifæri fyrir Ísland. Við erum að kortleggja þetta.“
Matvælaöryggið skiptir sköpum
Ofangreint textabrot má finna í kafla draganna þar sem fjallað er um landbúnað, en þar er undirstrikað mikilvægi atvinnugreinarinnar hér á landi. „Matvælaöryggi skiptir eyþjóð sköpum. Framsóknarmenn leggja áherslu á að efla innlenda matvælaframleiðslu og að auka hlutdeild innlendra matvæla í neyslu, enda er hvort tveggja gjaldeyrissparandi fyrir þjóðina.“
Þá er í drögunum að ályktunum flokksþings Framsóknarmanna kveðið á um að tollvernd skuli áfram vera önnur tveggja meginstoða í stuðningi yfirvalda við landbúnað hér á landi, líkt og hjá flest öllum fullvalda ríkjum og ríkjasamböndum, eins og það er orðað í drögunum. „Þó verður að huga að því að gera gagnkvæma samninga við önnur ríki eða ríkjasambönd um aukinn aðgang að mörkuðum. Þar skal gert að skilyrði að tollvernd verði ekki rýmkuð hér, nema fyrir aðgang að markaði í öðrum löndum komi á móti. Einhliða niðurfelling tolla kemur ekki til greina.