Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir að stefna Framsóknarflokksins sé að Landsbankinn verði áfram í eigu ríkisins og að flokkurinn sé til í að skoða hugmyndir þess efnis að bankinn verði samfélagsbanki, sem jafnvel beindi fjárfestingu sérstaklega inn á „köld svæði“ utan höfuðborgarsvæðisins.
Þetta kom fram í svari Lilju við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur þingmanns Vinstri grænna, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Steinunn Þóra sagði að Vinstri græn leggðu áherslu á að ríkið yrði áfram eigandi Landsbankans og að flokkurinn hefði talað um að „skapa umgjörð um starfsemi samfélagsbanka sem starfar samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum“.
Sagði Steinunn Þóra að hún teldi að slíkar áherslur yrðu sífellt mikilvægari í þeim breytingum sem heimurinn stæði frammi fyrir, á komandi misserum. Spurði hún ráðherra í kjölfarið út í afstöðu hennar, og Framsóknarflokksins, til eignarhalds eða hugsanlegrar sölu á Landsbankanum.
„Þjóðarbankinn“ Landsbankinn
„Það er alveg ljóst að við viljum að Landsbanki Íslands verði áfram í eigu þjóðarinnar og við teljum að það sé mjög mikilvægt. Varðandi þær hugmyndir [...] að þróa Landsbanka Íslands frekar í átt að samfélagsbanka, þá er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn er mjög opinn gagnvart því og líka að skoða svokölluð köld svæði á Íslandi, þar sem fjárfestingar hafa verið jafnvel verið minni en hér á hbsv og hvernig þjóðarbanki, Landsbanki Íslands, getur komið betur að þeim málum,“ sagði Lilja í svari sínu við fyrirspurn Steinunnar Þóru.
Í stefnu Framsóknarflokksins í atvinnu- og efnahagsmálum sem samþykkt var á flokksþingi fyrr á þessu ári segir ekkert ákveðið um hvernig eignarhaldi í bankakerfinu skuli háttað, en þó kemur fram að Framsókn leggi „áherslu á hagsmuni neytenda og skattgreiðenda við skipulagningu fjármálakerfisins og að stjórnvöld veiti fjármálakerfinu aðhald og eftirlit“.
Hugmyndir um samfélagsbanka hafa þó verið á sveimi innan Framsóknarflokksins um lengri tíma, en sá sem talaði hvað mest fyrir þeim var fyrrverandi þingmaður flokksins Frosti Sigurjónsson, sem var formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi formanns Framsóknar.
Telur kominn tíma á að uppfæra hvítbók um fjármálakerfið
Steinunn Þóra steig aftur í pontu eftir að Lilja hafði svarað og sagðist vona að frekara samtal myndi eiga sér stað um þessi efni. Hún beindi annarri spurningu að Lilju, þess efnis að ef til vill væri rétt að hverfa frá því að í fjárlögum væri kveðið á um heimildir til þess að selja hluti ríkisins í Landsbankanum, en þær hafa verið til staðar í fjárlögum undanfarin ár.
Lilja sagði að á síðasta kjörtímabili hefði verið ráðist í mikla vinnu við svokallaða hvítbók um fjármálakerfið. Þar hefðu línur verið lagðar um hvernig farsælt væri að endurskipuleggja fjármálakerfið eftir fjármálahrunið árið 2008. Í hvítbókinni, sem kynnt var 2019, var lagt til að ríkissjóður myndi minnka hlut sinn í Landsbankanum með skráningu hans á markað.
Lilja sagði að kominn væri tími á að „uppfæra þessa hvítbók“, þar sem miklar breytingar hefðu orðið á öllu umhverfi fjármálastofnana og þá um leið að uppfæra þessa heimild um sölu á Landsbankanum, sem mætti vera skýrari.
„Það er alveg á hreinu í mínum huga að Landsbankinn verði áfram þjóðarbanki og við þurfum að huga að því í sameiningu hverjar áherslur hans verða,“ sagði Lilja.