Flestir Íslendingar vilja að Framsóknarflokkurinn sitji í ríkisstjórn samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup, eða 77 prósent. RÚV greindi frá í gær.
Þar á eftir koma Vinstri græn með 72 prósent en 57 prósent vilja að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórn.
Fram kemur hjá RÚV að færri hafi nefnt stjórnarandstöðuflokkana fimm. 34 prósent vilja Samfylkinguna í ríkisstjórn, 28 prósent nefndu Pírata, 26 prósent Viðreisn, 23 prósent Flokk fólksins og 8 prósent vilja Miðflokkinn í ríkisstjórn.
Samkvæmt þjóðarpúlsinum vilja karlar Framsóknarflokkinn frekar í ríkisstjórn en konur og þá vill eldra fólk flokkinn frekar í stjórn en það yngra. Þá eru þeir sem hafa hæstar tekjur á fjölskyldu líklegastir til þess að vilja hafa Framsókn við völd.
Þegar spurt var hvaða flokkasamsetningu fólk vildi í ríkisstjórninni vildi yfir þriðjungur kjósenda hafa núverandi stjórnarflokka áfram. 44 prósent vilja aðra samsetningu ríkisstjórnar, að því er fram kemur hjá RÚV.
Könnunin var gerð 1. til 12. október. Heildarúrtakið var 1.629 manns og þátttökuhlutfall var 52,9 prósent.
Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir á milli Framsóknarflokksins, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í vikunni við fjölmiðla að það væri afar ólíklegt að ný ríkisstjórn og nýr stjórnarsáttmáli yrði kynntur fyrr en undirbúningskjörbréfanefnd hefði lokið störfum. Mikil vinna hefur verið hjá nefndinni undanfarið en nefndarmeðlimir rannsaka meðal annars endurtalningu í Norðvesturkjördæmi. Katrín sagði viðræður formanna flokkanna ganga vel.