Í undirbúningi er að byggja um fimm þúsund íbúðir fyrir um 175 milljarða króna í Garðabæ. Þetta mun rúmlega tvöfalda íbúafjölda sveitafélagsins úr um 14 þúsund nú í um 30 þúsund árið 2030. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Í blaðinu er rætt við Gunnar Einarsson, bæjarstjóra í Garðabæ, sem veltir því fyrir sér hvort eftirspurn sé eftir öllum þessum íbúðum sem stefnt er að því að byggja. „Nú er rosalega mikið í pípunum og spurning hvort eftirspurn sé eftir þessu öllu. Verktakar eru ekki að tala saman. Þeir eru hver á sínum báti. Það er eins með sveitarfélögin,“ segir Gunnar. Hann kallar eftir meiri samvinnu milli sveitafélaga.
Gunnar Einarsson.
Stefnt er að uppbyggingu á fimm svæðum. Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum á að byggja allt að 1.600 íbúðaeiningar í Urriðaholti (4-5.000 manns), 700 íbúðaeiningar í Hnoðraholti (um 2.000 manns) auk þess sem einkaaðilar hafa hugmyndir um að byggja allt að 630 íbúðaeiningar í Setbergslandinu (um 2.000 manns). Rammaskipulag var á sínum tíma gert fyrir um 8.000 manna byggð í Garðarsholti á Álftanesi en það er komið á byrjunarreit eftir sameiningu Álftaness við Garðarbæ og að lokum eru áform um að þétta byggð á Álftanesi í Breiðumýri, Kirkjubrú og Sveinskoti með alls um 140 einingum.
Alls gætu um 17 þúsund manns búið á þessum fimm svæðum.