Stjórnendur Landsbanka Íslands töldu ekki rétt að selja 31,2 prósent hlut í Borgun í opnu og gagnsæju ferli, eins og reglur bankans gera ráð fyrir. Bankinn tiltekur eftirtaldar ástæður fyrir því í tilkynningu á vefsíðu bankans: „Einn helsti keppinautur Landsbankans er meirihlutaeigandi félagsins og jafnframt einn stærsti viðskiptavinur þess, sem gerir Landsbankanum erfitt um vik, að vinna að sölu og afhendingu gagna um félagið. Landsbankinn hefur haft mjög takmarkaðan aðgang að Borgun eða upplýsingum um fyrirtækið vegna sáttar sem gerð var við Samkeppniseftirlitið árið 2008. Því auðveldaði þátttaka stjórnenda í kaupendahópnum mögulegum kaupendum að leggja mat á reksturinn og afla sér nauðsynlegra upplýsinga. Eðli málsins samkvæmt tóku samningar mið af þessari stöðu aðila,“ segir tilkynningunni.
Ekkert er þó nákvæmar rakið í tilkynningunni, en það er tekið fram að Samkeppniseftirlitið hafi þrýst á um að gerðar yrðu breytingar á eignarhlut þeirra í Borgun.
Eins og Kjarninn greindi frá í fréttaskýringu í gær, keypti Eignarhaldsfélag Borgunar slf. hlutinn í Borgun eftir að Magnús Magnússon, forsvarsmaður félagsins, hafði sett sig í samband við Landsbankann og viðrað hugmyndir um kaup á hlutnum. Þetta staðfesti Magnús í samtali við Kjarnann.
Kaupin voru meðal annars rædd á Alþingi í dag þar sem Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, furðaði sig á aðferðum Landsbankans við sölu á hlutnum og sagði þær ekki til fyrirmyndar.
Kaupin fóru fram bak við luktar dyr, þar sem enginn annar en hópurinn sem sýndi áhuga á kaupunum fékk að reyna að kaupa hlutinn.
Stofnfé Eignarhaldsfélags Borgunar nemur 500 þúsund krónum sem skiptist í þrjá flokka, 100 þúsund í A flokki, 395 þúsund í B flokki og fimm þúsund í C flokki. Í A og B flokki eru eigendur stofnfjár með takmarkaða ábyrgð en í C flokki er ótakmörkuð ábyrgð.
B flokkurinn langstærstur
Einu eigendur A flokks stofnfjár er félagið Orbis Borgunar slf. Eigendur B flokks hlutabréfa Eignarhaldsfélags Borgunar eru þrettán talsins, samkvæmt samningi um samlagsfélagið sem Kjarninn hefur undir höndum. Stærsti einstaki eigandinn er Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, með 29,43 prósent hlut. Þá á félagið P126 ehf. 19,71 prósent hlut, en eigendur þess eru Einar Sveinsson og sonur hans Benedikt Einarsson, í gegnum móðurfélagið Charamino Holdings Limited sem skráð er á Lúxemborg.
Þá á Pétur Stefánsson ehf. 19,71 prósent hlut, en forsvarsmaður þess var Sigvaldi Stefánsson á stofnfundi. Samanlagður eignarhlutur þessara þriggja stærstu eigenda nemur 68,85 prósentum af B flokki stofnfjár.
Á eftir þessum stærstu eigendum kemur félagið Vetrargil ehf. með 5,14 prósent hlut og TD á Íslandi ehf. 5,15 prósent. Afganginn eiga AB 426 ehf (2,86%)., þar sem Sigurþór Stefánsson er í forsvari, Eggson ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er í forsvari, Bústoð ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta er einnig í forsvari, Framtíðarbrautin ehf. (4,43%), þar sem B. Jakobína Þráinsdóttir er í forsvari, Iðusteinar ehf., þar sem Magnús Pálmi Örnólfsson er í forsvari, Holt og hæðir ehf., þar sem Sigríður V. Halldórsdóttir er í forsvari, Spectabilis ehf., þar sem Óskar V. Sigurðsson er í forsvari, og Mens Manus ehf., þar sem Hjalti Þ. Kristjánsson er í forsvari.
Stofnfundur í október
Samkvæmt stofnfundargerð félagsins, frá 23. október síðastliðnum, voru fjórir einstaklingar mættir fyrir hönd félaganna Orbis Borgunar slf. og Orbis GP ehf. Þau félög eru þau einu sem eru í eigendur stofnfjár í C flokki með ótakmarkaða ábyrgð. Þau sem mættu á fundinn fyrir hönd félaganna voru Magnús Magnússon, Óskar V. Sigurðsson, Jóhann Baldursson og Margrét Gunnarsdóttir.