Frétt þýska blaðsins Faz, um að rætt hafi verið við Grísk stjórnvöld um að koma á fjármagnshöftum, hefur vakið mikla athygli og valdið titringi inn í samningaviðræðum Grikkja og Evrópusambandsríkjanna, um hvort 240 milljarða evra efnahagsáætlun landsins skuli framhaldið eða það tekið upp og því breytt, eins og grísk stjórnvöld, með Syriza flokkinn í broddi fylkingar, vilja.
Seðlabanki Evrópu hefur neitað því að þessar hugmyndir hafi verið ræddar við Grikkja, en fjölmiðillinn hefur staðið við fréttina og haldið áfram með fréttaflutning sinn, sem þykir renna stoðum undir að þessar hugmyndir hafi í reynd verið ræddar. Mario Draghi, seðlabankastjóri, er sagður æfur vegna lekans, að því er segir í frétt blaðsins.
Í endursögn Business Insider af málinu kemur fram að gríska fjármálakerfið sé sérstaklega viðkvæmt fyrir orðrómi um fjármagnshöft, og hafi þegar skaðast vegna hans. Spjótin hafa beinst að þýska seðlabankanum, Bundesebank, og valdið titringi í valdatafli innan Seðlabanka Evrópu, sem starfar eftir ítarlegum leiðarvísi um samstarf við aðildarríki Evrópusambandsins.
Fyrirsögnin greinarinnar var; Seðlabanki Evrópu missir trúna á Grikklandi. Þá er því haldið fram í greininni að nú sé vel mögulegt, að Grikkir muni í reynd yfirgefa evrusvæðið og séu fjármagnshöftin til þess fallin að undirbúa landið fyrir slíkt.