María Lilja Þrastardóttir, fyrrum blaðamaður á Fréttablaðinu, segir að frétt sem hún skrifaði árið 2013 um ruslpóst hafi verið stöðvuð af öðrum ritstjóra Fréttablaðsins árið 2013. Ritstjóranum, sem María Lilja segir að hafi verið Mikael Torfason, þótti „óheppilegt“ fyrir 365 miðla að fréttin færi í loftið í ljósi þess að fyrirtækið gefur út Fréttablaðið, en því er dreift frítt og óumbeðið í 90 þúsund eintökum daglega.
María Lilja skrifaði stöðufærslu á Facebook um málið í dag í kjölfar þess að frétt um magn ruslpósts í desember birtist í DV. Stöðufærsluna má sjá hér að neðan:
Kjarninn greindi frá því í mars 2014 að heildarkostnaður við urðun á dagblaða- og tímaritapappír á höfuðborgarsvæðinu er 40 til 45 milljónir króna á ári. Þetta er kostnaður sem lendir á SORPU þrátt fyrir blátunnu, grenndargáma og endurvinnslustöðvar. Hann lendir beint á skattgreiðendum á höfuðborgarsvæðinu sem eiga og reka SORPU. Sveitafélögin niðurgreiða því útgáfu dagblaða og tímarita um þessa upphæð á ári hverju.
Uppistaðan í pappírsruslinu sem þarf að urða eru fríblöð. Langstærsta fríblað landsins er Fréttablaðið, sem er dreift frítt í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar.