Fréttablaðið, sem dreift hefur verið inn á heimili fólks frá því að það var sett á fót árið 2001, fyrir rúmlega tveimur áratugum, mun ekki gera það lengur. Frá og með morgundeginum verður blaðið aðgengilegt á 120 fjölförnum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, Árborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarnesi og á Akureyri og á rafrænu formi.
Í frétt á vef blaðsins er haft eftir Jóni Þórissyni, forstjóri Torgs útgáfufélags Fréttablaðsins, að ástæða þessarar breytingar sé margþætt. „Í fyrsta lagi höfum við hjá Torgi haft vaxandi áhyggjur af því að dreifing blaðsins væri ekki í samræmi við þau markmið sem við höfum gengið út frá og að dreifingarferlinu fylgdi óþarfa sóun. Það er í takti við vaxandi umhverfisvitund að lágmarka kolefnisspor í okkar starfsemi. Við bætist svo að dreifing blaðs til tugþúsunda heimila er óhemju kostnaðarsöm og reikna má með að kostnaður á nýbyrjuðu ári hefði orðið yfir einn milljarður króna.“
Jón segir við blaðið að fullreynt hafi verið að breyta dreifingarsamningi við Póstdreifingu, sem dreift hefur blaðinu um árabil.„Þessi samningur var þegar í gildi þegar núverandi eigendur komu að félaginu og þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir reyndist ekki flötur á að semja um að losna undan þeirri skuldbindingu. Þannig var allt svigrúm í útgáfunni fjarlægt, eintakafjöldi fastsettur sem og fjöldi útgáfudaga og ekki mögulegt að koma til móts við umhverfissjónarmið og sporna við sóun. Því er ekki að leyna að um eins milljarðs króna árlegur dreifingarkostnaður var þungbær fyrir reksturinn.“ Fréttablaðinu var dreift í 75 þúsund eintökum á dag.
Lesturinn dalað hratt
Lestur Fréttablaðsins mælist nú 28,2 prósent í heild, samkvæmt nýjustu lestrartölum Gallup. Hann fór í fyrsta sinn undir 30 prósent í janúar í fyrra og hefur haldið áfram að dala í hverjum mánuði síðan þá. Alls hefur lesturinn meira en helmingast á einum áratug.
Fréttablaðið var fyrst gefið út árið 2001 og náði fljótt mikilli fótfestu á dagblaðamarkaði með tilheyrandi sneið af auglýsingatekjukökunni. Vorið 2007 sögðust til að mynda 65,2 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið.
Undir lok árs 2015 fór lestur blaðsins í fyrsta sinn undir 50 prósent og tæpum þremur árum siðar fór hann undir 40 prósent.
Mestur er samdrátturinn hjá yngri lesendum. Hjá aldurshópnum 18 til 49 ára mælist hann nú 17,9 prósent eftir að hafa farið undir 20 prósent í fyrsta sinn í apríl síðastliðnum. Fyrir tólf árum lásu 64 prósent landsmanna í þessum aldurshópi Fréttablaðið. Lesturinn í dag er einungis 28 prósent af því sem hann var hjá fullorðnum undir fimmtugu vorið 2010.
Mikill taprekstur
Fréttablaðið er í eigu útgáfufélagsins Torgs og er flaggskip þess félags. Félagið rekur einnig vefmiðlana dv.is, eyjan.is, pressan.is, 433.is, hringbraut.is, frettabladid.is og sjónvarpsstöðina Hringbraut.
Útgáfudögum Fréttablaðsins var fækkað úr sex í fimm á viku á árinu 2020 þegar hætt var með mánudagsútgáfu blaðsins.
Hópurinn keypti Torg í tveimur skrefum á árinu 2019. Kaupverðið var trúnaðarmál en í ársreikningi HFB-77 ehf. fyrir árið 2019 má sjá að það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna á því ári. Torg var og er eina þekkta eign félagsins.
Tap af reglulegri starfsemi fjölmiðlafyrirtækisins Torgs var 325,7 milljónir króna á árinu 2021,, samkvæmt ársreikningi félagsins. Heildartapið var 252,5 milljónir króna en þar munar mestu um að tekjuskattsinneign vegna taps ársins var bókfærð sem tekjur upp á 73 milljónir króna. Uppsafnað skattalegt tap nýtist ekki nema að fyrirtæki skila hagnaði.
Á árunum 2019 og 2020 var milljarðs króna tap af reglulegri starfsemi fyrirtækisins. Samanlagt hefur því verið rúmlega 1,3 milljarða króna tap af henni á þremur árum. Heildartap, þegar búið er að taka tillit til þeirrar tekjuskattsinneignar sem skapaðist vegna tapsins á þessum árum, var tæplega 1,1 milljarður króna.