Sunna Valgerðardóttir, sem hefur að undanförnu starfað sem fréttamaður á fréttastofu RÚV, hefur verið ráðin sérfræðingur hjá samskiptamálum Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.
Þar segir ennfremur:
Sunna er með BA-próf í fjölmiðla- og nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri og diplóma í margmiðlunarhönnun frá Odense Tekniske Skole. Hún starfaði á ritstjórn Fréttablaðsins frá 2009 til 2013. Þá hóf hún störf á fréttastofu RÚV, þar sem hún hefur starfað síðan. Sunna hlaut Íslensku blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun ársins 2012.
Starfið var auglýst í marsmánuði síðastliðnum og var Sunna ráðin úr hópi um 50 umsækjenda. Á meðal verkefna Sunnu verður að taka þátt í hönnun upplýsingaefnis og að þróa notkun hinna ýmsu nýju samskiptamiðla hjá OR ásamt því að vera talsmaður fyrirtækja innan samstæðu Orkuveitunnar. Sunna mun hefja störf um miðjan mánuðinn.