Vikutímaritið Charlie Hebdo er þekkt fyrir að hæðast og hlæja að öllu. Blaðið hefur veitt sér það frelsi að hæðast að trúarbrögðum: kaþólsku kirkjunni, kristni, gyðingadómi, íslam; sem og stjórnmálamönnum, forsetum, þingmönnum, kóngum og drottningum og menningarelítunni. Í Charlie Hebdo eru ádeilugreinar, háð, brandarar, svívirðilegar skopmyndir með hárbeittu gríni. Blaðið á sér rúmlega 40 ára sögu.
Freyr Eyjólfsson.
Skrifstofur blaðsins, þar sem árásirnar fóru fram í dag, eru í 11. hverfi Parísar sem er stærsta fjölmenningarhverfi Evrópu. Áður var gerð sprengjuárás á þessum slóðum í nóvember 2011 eftir að blaðið birti skopmyndir af Múhameð. Ári síðar birti svo blaðið mjög umdeildar myndir af spámanninum nöktum. Charlie Hebdo hefur sömuleiðis birt myndir Jesús og Guði í annarlegum kynferðislegum stellingum; í raun farið alla leið í sínu ádeilugríni.
Beitt og gróft ádeilugrín er stór partur af franskri menningu og má rekja allt aftur í aldir. Þekktustu skopmyndateiknarar Frakklands liggja nú í valnum í Charlie Hebdo árásinni: Cabu, Charb, Tignous, og Wolinski.
Enn veit enginn hver ber ábyrgð á þessum hryllingi – margir óttast hins vegar afleiðingarnar. Sér í lagi ef að herskáir múslimar eru að baki þessu ódæði. 99,9 prósent allra múslima í París er friðsamt fólk - fjölmargir múslimar hafa formdæmt fjöldamorðin. Fjöldamorðin gætu samt hugsanlega ýtt undir íslamfóbíu.
Gríðarleg öryggisgæsla er nú í París.
Öryggisgæsla hefur verið hert í kringum verslanir, samgöngustöðvar, trúarbyggingar og fjölmiðla. Franska herlögreglan er á hverju götuhorni þessa stundina. Hryðjuverkaárás hefur lengi legið í loftinu í París – margar og ítrekaðar hótanir – og nú hefur það gerst sem margir hafa óttast. Allir sem tjá sig um þennan hryling hafa samt hamrað á því að þessi árás muni ekki breyta frönsku samfélagi; helstu gildi og hugsjónir lýðveldisins eru enn í fullu gildi: frelsi, jafnrétti og bræðralag. Málfrelsið og tjáningafrelsið eru enn í öndvegi.