Það er venjulegur mánudagur í París. Fólk sest niður á kaffihúsi, les morgunblöðin, spjallar og fer svo í vinnuna. Allt virðist rólegra. Samstöðugangan í gær virtist hafa einhverskonar þerapískt gildi fyrir borgarbúa. Skilaboðin í göngunni voru einfaldlega þessi: lífið heldur áfram og virðum grundvallargildi þessa samfélags, þau gildi sem hafa bundið saman þetta margleita og fjölskrúðuga samfélag í rúm 200 ár, frelsi, jafnrétti og bræðralag. Dýnamíkin í þessari borg er fjölbreytnin, hún er litskrúðug og margskonar, hér eru átök og spenna – en einmitt þetta bindur þennan hóp saman. Við getum rifið kjaft, hlegið, gagnrýnt, móðgað hvert annað, trúað á hitt og þetta eða ekki – en berum samt virðingu fyrir réttindum og frelsi hvers og eins.
Fórnaði lífinu fyrir tjáningarfrelsið
Freyr Eyjólfsson.
Charlie Hebdo gengið var fyrst og fremst skemmtikraftar. Þeir komu fólki til að hlæja og hugsa. Lögregluþjónninn og músliminn Ahcmet sem stóð vaktina fyrir utan skrifstofur þeirra var svo sem enginn aðdáandi verka þeirra, en fórnaði engu að síður lífi sínu til þess að verja tjáningafrelsi þeirra.
Allt virðist rólegra. Samt er einhver undirliggjandi spenna. Búið að er aflýsa öllum vettvangsferðum og skólaferðum grunnskólabarna í París næstu daga. Um fimmtán þúsund herlögreglumenn eru á sérstakri vakt á svokölluðum „viðkvæmum svæðum“ víðsvegar um Frakkland. Um 5000 lögreglumenn gæta sérstaklega 700 skóla gyðinga í landinu. Það er verið að fara yfir viðbrögð lögreglunnar síðustu viku og hugsanlega leggja drög að því að herða enn eftirlit og öryggisgæslu. Allt á að gera til þess að reyna hindra frekari hryðjuverk.
Víða var efnt til samstöðufunda í gær vegna voðaverkanna í París. Hér má sjá þátttakanda á slíkum fundi í Stokkhólmi.
Opnara og frjálsara samfélag
Manuel Valls, forsætisráðherra, hélt fund með fjölmiðlum, til þess að kynna aðgerðir lögreglunnar næstu daga. Lögreglan leitar enn vitorðsmanna morðingjanna. Það hefur verið staðfest að ein eiginkona þeirra hafi farið til Sýrlands með viðkomu í Tyrklandi. Frakkar og aðrar þjóðir í Evrópu hafa lýst yfir vonbrigðum sínum með Tyrki og hvað þeir gera lítið til þess að hindra það að hópar fari frá Evrópu til þess að berjast fyrir ISIS í Sýrlandi.
Ýmsir hafa viðrað hugmyndir sínar um að herða enn frekar hryðjuverkalög í Evrópu, fulltrúar Þjóðfylkingarinnar hafa nefnt hvort ekki sé ráð að draga bara fram fallöxina að nýju. Einhverjir múslimar hafa þurft að þola árásir og svívirðingar síðustu daga. Þetta eru hinar ömurlegu afleiðingar fjöldamorðanna. Nicolas Sarkozy hefur sagt að nú verði að endurskoða innflytjendalögin.
Öll samstöðugangan gekk hins vegar út á það að að bregðast frekar við fjöldamorðunum með opnara og frjálsara samfélagi.
Og það var heldur snautlegt að sjá engan íslenskan ráðherra eða lýðkjörinn fulltrúa Íslands í göngunni. Það hefði verið vel sæmandi til þess að sýna fórnarlömbunum viðingu og Frökkum samstöðu. En því miður.