Þessa stundina, þegar þessi orð eru skrifuð, er einskonar ógnarástand í París. Maðurinn sem myrti lögreglukonu í gær og komst undan, er kominn aftur á stjá. Nú hefur hann tekið fimm manns í gíslingu í matvörubúð gyðinga við port de Vincennes. Meðal gíslanna eru börn og að minnsta kosti einn hefur særst.
Freyr Eyjólfsson.
Á sama tíma er fjölmennt lögreglulið í smábænum Dammartin-en-Goele sem er um 14 km norðan við París. Þar eru Kouachi-bræðurnir í prentsmiðju með gísla. Lögreglan er að reyna ná sambandi og semja við ódæðismennina. Það þykir óvíst að þeir vilji semja, hugsanlega reyna þeir að drepa fleiri lögreglumenn; þeir vilja skapa ótta og glundroða. Það er jafnvel talið að leið þeirra bræðra hafi legið á Charles de Gaulle flugvöllinn sem liggur rétt Dammartin; slíkt hefði getað skapað mikinn glundroða.
Fólk óttast frekara mannfall – jafnvel frekari hryðjuverk. Þetta er stærsta lögregluaðgerð í sögu lýðveldisins. Neyðarlög gilda þessa stundina og hver einasti lögregluþjónn í borginni er vopnaður.
Nú þykir ljóst að þessi tvö atvik tengjast og þessir menn tilheyra ef til vill sama hópnum. Ég er staddur á kaffihúsi þessa stundina í 18. hverfi. Það er ógn í loftinu, flesta setur hljóðan og andrúmslofið er afar sérkennilegt. Það er næstum þögn í borginni.