Breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn um afnám hafta. Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabankans, fer út úr hópnum og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá MP banka, tekur sæti í honum.
Seðlabanki Íslands hefur einnig tilnefnt tvo starfsmenn bankans til að starfa í framkvæmdahópnum: Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans,og Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóra alþjóðasamskipta og skrifstofu bankastjóra.
Á meðan þau starfa í hópnum mun Ingibjörg ekki gegna daglegum störfum við stjórn gjaldeyriseftirlits og Jón Sigurgeirsson hætta sem stjórnarformaður Eignasafns Seðlabanka Íslands. Framkvæmdahópurinn mun líkt og áður vinna með erlendum ráðgjöfum stjórnvalda að losun fjármagnshafta. Markmið stjórnvalda er að losa um fjármagnshöftin eins fljótt og auðið er án þess að tefla efnahagslegum stöðugleika í tvísýnu. Losun fjármagnshafta er eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda um þessar mundir. Þetta var tilkynnt á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins í dag.
Í tilkynningunni segir einnig að Glenn Victor Kim „gegni áfram formennsku í framkvæmdahópnum, en hann hefur áralanga reynslu af erlendum fjármálamörkuðum og starfaði m.a. áður sem sérstakur ráðgjafi þýska fjármálaráðuneytisins vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar á evrusvæðinu. Dr. Sigurður Hannesson hefur verið ráðinn til tímabundinna starfa í hópnum. Sigurður er stærðfræðingur og framkvæmdastjóri hjá MP Banka. Hann gegndi formennsku í sérfræðingahópi um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána."
Var til skoðunar
Kjarninn greindi frá því á mánudag að til skoðunar væri stýrinefnd um losun hafta að stækka framkvæmdahóp sem heyrir undir hana. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um það. Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið segir að „komi til þess verður það tilkynnt formlega þegar frá því hefur verið gengið“.
Ástæða fyrirspurnar Kjarnans var fréttatilkynning frá MP banka sem send var til fjölmiðla 9. janúar síðastliðinn. Fyrirsögn hennar var „Framkvæmdastjóri hjá MP banka vinnur að losun fjármagnshafta“. Sá sem um ræðir heitir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá MP banka, og var tiltekið að hann myndi fá tímabundið leyfi frá störfum frá 15. janúar, sem var síðasta fimmtudag. Í tilkynningunni sagði að „á meðan á leyfi Sigurðar stendur mun hann vinna fyrir stjórnvöld að losun fjármagnshafta“.
DV hafði einnig fjallað ítarlega um málið og fullyrt að Sigurður og Benedikt Gíslason, efnahagsráðgjafi Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, yrðu hluti „af sérstökum hópi stjórnvalda sem hefur yfirumsjón með að hrinda í framkvæmd tillögum um losun hafta næstu mánuði“. Samkvæmt blaðinu átti hópurinn að hafa umboð til að eiga samráðsfundi með fulltrúum slitabúanna um mögulegar leiðir við uppgjör bankanna. Þeir sem skipaðir höfðu verið í framkvæmdastjórn um afnám hafta, utan Benedikts, áttu „áfram að starfa að afmörkuðum verkefnum í tengslum við haftavinnu stjórnvalda“. Þeir eru Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabankans, Eiríkur Svavarsson lögmaður og fjármálaráðgjafinn Glenn Kim, sem átti að leiða hópinn.
Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins voru þær fréttir ekki réttar.