Stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) tekur undir gagnrýni Almenningshlaupanefndar sambandsins á framkvæmd Reykjavíkurmaraþonsins og mun óska eftir viðræðum við stjórnendur hlaupsins um nauðsynlegar endurbætur á framkvæmd Reykjavíkurmaraþons í framtíðinni. Þetta kemur fram í samþykkt frá síðasta stjórnarfundi FRÍ, sem haldinn var á mánudaginn, og Kjarninn hefur undir höndum.
Reykjavíkurmaraþon heyrir undir stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), þrátt fyrir að FRÍ hafi lögsögu yfir hlaupinu.
Kæra vegna meints svindls kom umræðunni af stað
Umræðu um framkvæmd Reykjavíkurmaraþons má rekja til kæru hlauparans Péturs Sturla Bjarnasonar á hendur Arnari Péturssyni, Íslandsmeistara karla í maraþoni, þar sem Arnar var sakaður um svindl í hlaupinu, sem fram fór 23. ágúst síðastliðinn, með því að hafa notið liðsinnis hjólreiðamanna í hlaupinu, sem er brot á reglum hlaupsins.
Yfirdómnefnd viðurkenndi að reglur hlaupsins hefðu verið brotnar, en vísaði kærunni engu að síður frá þar sem ekki þótti sannað að hjólreiðamennirnir hefðu aðstoðað Arnar. Niðurstaða dómnefndarinnar var þá kærð til dómstóls ÍSÍ, sem staðfesti hana. Þeirri niðurstöðu var áfrýjað til áfrýjunardómstóls ÍSÍ, sem tók ekki málið til efnislegrar meðferðar vegna formgalla á kæru málsins.
Almenningshlaupanefnd gagnrýndi framkvæmd hlaupsins
Í nýlegri ályktun Almenninshlaupanefndar FRÍ um málið, sem Kjarninn hefur undir höndum og fjallaði um, kemur fram gagnrýni á framkvæmd Reykjavíkurmaraþons. Þar segir að FRÍ hafi lögsögu yfir götuhlaupum, sem þurfi að kynna betur meðal hlaupahaldara og þátttakenda. Þegar um Íslandsmeistaramót sé að ræða, eins og í tilfelli Reykjavíkurmaraþons, skuli fara eftir reglum FRÍ um framkvæmd þeirra, sem byggja á alþjóðlegum reglum um meistaramót í götuhlaupum. Þar er til að mynda skýrt bann við hraðastjórnun.
Þá hafði FRÍ enga aðkomu að framkvæmd hlaupsins eða dómgæslu, að því er fram kemur í áðurnefndri ályktun Almenningshlaupanefndar sambandsins. Hlaupahaldarar (ÍBR) hafi kynnt sínar eigin reglur, þar sem ekki var vísað sérstaklega í reglur FRÍ. „Taka þarf af öll tvímæli um hvaða reglum fara eigi eftir við framkvæmd meistaramóta í götuhlaupum. Nefndin leggur til að FRÍ skipi yfirdómara þegar um Íslandsmeistaramót í götuhlaupum er að ræða,“ segir í ályktun hlaupanefndar.
Að lokum gerðiAlmenningshlaupanefnd athugasemd við kærumeðferð málsins. Kæran hafi aldrei komið til afgreiðslu hjá FRÍ, sem hefði átt að taka málið til afgreiðslu, þar sem FRÍ hafi lögsögu yfir Íslandsmeistarakeppni í götuhlaupum, áður en það fór til dómstóls ÍSÍ: „Mikilvægt sé að farvegur kærumála sé skýr.“
Eins og áður segir er stjórn FRÍ sammála gagnrýni Almenningshlaupanefndar sambandsins, og mun óska eftir viðræðum við ÍBR um nauðsynlegar endurbætur á framkvæmd hlaupsins. Næsta Reykjavíkurmaraþon fer fram 22. ágúst á næsta ári.