Franska þingið samþykkti í gær frumvarp til laga sem bannar stórum matvöruverslunum að henda ætum mat, og skikkar þær til að gefa hann til góðgerðarsamtaka eða selja sem fóður fyrir skepnur. Fréttamiðillinn Quartz greinir frá málinu.
Verði frumvarpið að lögum verður beinlínist ólöglegt að henda mat sem runninn er út á síðasta söludag, ef hann er óskemmdur og hæfur til manneldis. Þá varðar það sömuleiðis við lög ef matvöruverslanir gerast uppvísar að því að skemma ætan mat, sem fjarlægður hefur verið úr hillum verslananna.
Umræða um matarsóun hefur verið áberandi í Evrópu á undanförnum misserum, og dæmi eru um að kaffihús og veitingahús sem bjóða upp á „útrunninn“ mat hafi dúkkað upp kollinum í álfunni, og notið gríðarlegra vinsælda.
Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, er áætlað að um 1,3 milljarðar tonna af mat, eða um þriðjungur heimsframleiðslunnar, endi á sorphaugunum á hverju ári.
Áðurnefnt lagafrumvarp sem tekur á matarsóun matvöruverslanna í Frakklandi, bíður nú samþykktar öldungadeildar franska þingsins áður en það getur orðið að lögum.