Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra leggur í dag fram frumvarp um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en náði þá ekki fram að ganga. Verði það að lögum mun Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) leggjast niður og starfsemi hennar verður færð inn í utanríkisráðuneytið. Málið er á dagskrá þingsins í dag en þingfundur hófst klukkan 13:30.
ÞSSÍ hefur frá formlegri stofnun árið 1981 haft yfirumsjón með svokallaðri tvíhliða þróunaraðstoð Íslendinga, þar sem Ísland er í beinu starfstarfi við ákveðin lönd sem þiggja þróunaraðstoð. Í dag eru þau lönd Malaví, Mósambík og Úganda, auk þess sem ÞSSÍ hefur stutt jarðhitarannsóknir á nokkrum stöðum í austanverðri Afríku. Marghliða þróunarsamvinna, þar sem Ísland leggur sitt að mörkum til alþjóðastofnanna eins Alþjóðabankans (World Bank) og þróunaraðstoðar Sameinuðu Þjóðanna(UNDP) er á forræði utanríkisráðuneytisins sjálfs.
Í greingargerð með frumvarpinu segir að með því að færa framkvæmd þróunarsamvinnumála á eina hendi sé verið að einfalda skipulagið. „Betri heildarsýn mun nást yfir málaflokkinn og stefnumótun verða markvissari þegar um einn ábyrgðaraðila er að ræða. Samhæfing mun eflast, framkvæmd verða skilvirkari og samlegðaráhrif af starfi Íslands á sviði þróunarsamvinnu aukast. Þannig má gera ráð fyrir að breytingin stuðli að auknum áhrifum af starfi Íslands og auknum árangri þegar til lengri tíma er litið,“ segir í greinargerðinni.
Í bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við færslu starfsemi ÞSSÍ til ráðuneytisins verði öllum starfsmönnum ÞSSÍ boðið starf hjá ráðuneytinu. Þar eru þróunarverkefni á ábyrgð svokallaðrar þróunarsamvinnuskrifstofu þar sem níu manns starfa í dag. Í dag eru starfsmenn ÞSSÍ 38 talsins; 9 manns á aðalskrifstofu í Reykjavík, 11 í umdæmisskrifstofunni í Lilongwe í Malaví, 6 í umdæmisskrifstofunni í Mapútó í Mósambík og 12 í umdæmisskrifstofunni í Kampala í Úganda. Í Lilongwe eru 2 starfsmenn útsendir og 9 staðarráðnir, í Mapútó eru 2 starfsmenn útsendir og 4 staðarráðnir og í Kampala eru 2 starfsmenn útsendir og 10 staðarráðnir.
Í greinargerð frumvarpsins segir ennfremur að málið hafi fengið vandaða meðferð og ítarlega umfjöllun m.a. í utanríkismálanefnd á síðastliðnu þingi.