Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, mun ekki leggja fram frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu á yfirstandandi þingi. RÚV greinir frá málinu. Í frétt RÚV segir að ríkisstjórnin hafi enn ekki náð samkomulagi um hver eigi að fara með forræði yfir kvótanum.
Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að fiskveiðistjórnunarkerfið eigi að byggja á aflamarkskerfi og áfram verði unnið með tillögu sáttanefndarinnar svokölluðu sem starfaði á síðasta kjörtímabili, þar sem lagt er til að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun.
Í samtali við RÚV segir sjávarútvegsráðherra að ágreiningur stjórnarflokkanna snúist um hver skuli fara með forræði á kvótanum. Þar hafi ekki náðst niðurstaða, hvorki á milli stjórnaflokkanna né á þinginu. Nú sé málið komið á endastöð nema fosendur breytist. Hann á því ekki von á að hann muni leggja fram frumvarp um breytingar á stjórn fiskveiða.
Hins vegar mun frumvarp um veiðigjöld verða tekið fyrir á vorþingi og segist sjávarútvegsráðherra ætla að leggja það fram eins fljótt og hægt verði.