Fylgi Framsóknarflokkurinn dregst saman um heil fjögur prósentustig á milli mánaða, samkvæmt nýrri fylgiskönnun Maskínu sem birt er í dag. Flokkurinn mældist með 19,6 prósenta fylgi í mælingu fyrirtækisins í ágúst, en fylgið mælist nú 15,6 prósent.
Á sama tíma bætir Samfylkingin við sig 2,3 prósentustigum frá síðasta mánuði og nartar í hæla Framsóknar með 15,2 prósenta fylgi. Fylgi Samfylkingar hefur aukist um rúm fjögur prósentustig frá því í júlí, en þá mældist fylgið 10,9 prósent.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins er á svipuðum slóðum og í síðustu mælingu Maskínu, en flokkurinn mælist með 20,8 prósent og er stærsti flokkur landsins sem fyrr.
Píratar en Viðreisn og Vinstri græn vinna á
Píratar mælast með 12,3 prósent fylgi í þessari könnun en mældust með 13,9 prósent í ágústmánuði.
Á sama tíma bæta bæði Viðreisn og Vinstri græn við sig fylgi sem nemur rúmu prósentustigi á milli mánaða og er fylgi Viðreisnar nú 10,4 prósent, en fylgi Vinstri grænna mælist 8,7 prósent.
Sósíalistar enn stærri en tveir flokkar sem eiga sæti á þingi
Sósíalistaflokkurinn mælist með ögn minna fylgi en í síðasta mánuði, eða 6,8 prósent.
Flokkurinn, sem á engan fulltrúa á þingi, er þannig með meira fylgi en bæði Flokkur fólksins og Miðflokkurinn, þrátt fyrir að báðir flokkar bæti við sig á milli mánaða.
Fylgi Flokks fólksins mælist nú 5 prósent og fylgi Miðflokksins 5,3 prósent.
Könnun þessi var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e.panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur voru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar, þannig að úrtakið endurspeglar þjóðina prýðilega. Við vigtun svara getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundun.
Könnunin fór fram dagana 16. til 27. september 2022 og voru 1.875 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.