Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur auka fylgi sitt frá því í október, samkvæmt nýrri skoðannakönnun Fréttablaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn fer úr 30,3 prósentum 32,9 prósenta fylgi. Það þýðir að flokkurinn myndi fá 22 þingmenn kjörna ef kosið væri nú, eða þremur fleiri en í síðustu alþingiskosningum. Framsóknarflokkurinn bætir örlítið við sig á milli kannanna. Hann mældist með 8,7 prósenta fylgi í október en fengi nú 12,8 prósent. Flokkurinn er langt frá kjörfylgi sínu því hann fékk 24,4 prósent í síðustu kosningum. Þingmönnum hans myndi því fækka úr 19 í níu ef kosið yrði nú.
Ríkisstjórnarflokkarnir kynntu niðurstöðu Leiðréttingarinnar, aðgerðaráætlunar hennar í skuldamálum þeirra heimila sem voru með verðtryggð lán, í byrjun síðustu viku. Leiðréttingin var stærsta kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar.
Samfylkingin næst stærsti flokkurinn
Samkvæmt könnun Fréttablaðsins yrði Samfylkingin næststærsti flokkur landsins ef kosið yrði í dag.Hún fengi 19,2 prósent atkvæða og tólf þingmenn, sem er þremur fleiri en í síðustu alþingiskosningum.
Björt Framtíð fengi 12,5 prósent atkvæða, Vinstri-græn 9,7 prósent og Píratar 9,2 prósent.