Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 29,4 prósent og bætir við sig fjórum prósentustigum á milli mánaða. Stuðningur við ríkisstjórnina eykst einnig lítillega og mælist nú 37,3 prósent. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.
Fylgi Framsóknarflokksins, heldur áfram að dala. Flokkurinn mælist nú með 11 prósent fylgi en var með 11,8 prósent í lok nóvember.
Könnunin var framkvæmd daganna 9. til 16. desember og heildarfjöldi svarenda var 1.097 manns eldri en 18 ára.
Björt framtíð næst stærst
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 25,4 prósent fylgi í könnun MMR sem birt var 25. nóvember síðastliðinn. Nú mælist fylgi hans 29,4 prósent og er það mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan í febrúar á þessu ári. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 26,4 prósent atkvæða.
Samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn, Framsóknarflokkurinn, heldur hins vegar áfram að dala. Flokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum í apríl í fyrra en síðan þá hefur fylgið hrunið af flokknum. Hann mælist nú með 11 prósent fylgi og er með næst minnst fylgi allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi um þessar mundir.
Næst stærsti flokkur landsins samkvæmt MMR er Björt framtíð með 16,2 prósent fylgi. Fast á hæla hans fylgir Samfylkingin með 16,1 prósent fylgi en flokkarinr hafa verið að mælast á þessu bili undanfarna mánuði.
Píratar yrðu fjórði stærsti flokkur landsins ef kosið yrði í dag. Samkvæmt mælingu MMR styðja 11,4 prósent landsmanna þá. Vinstri grænir eru hins vegar minnsti flokkur landsins miðað við könnunina. Fylgi þeirra mælist 10,4 prósent.