Auðkýfingurinn Donald Trump mælist vinsælasta forsetaefni Repúblikanaflokksins, samkvæmt nýrri könnun Washington Post og ABC sjónvarpsstöðvarinnar. Fylgi Trumps mældist 24 prósent í könnun sem gerð var dagana 16. til 19. júlí. Það er tvöfalt meira fylgi en hjá næsta frambjóðanda. Enginn Repúblikani hefur mælst með meira fylgi í könnunum á þessu ári. Vinsældir Trumps hafa sexfaldast frá því í byrjun maí, skömmu áður en hann tilkynnti formlega um að hann sækist eftir því að vera forsetaefni Repúblikana í forsetakosningunum 2016.
Næstur á eftir Trump í skoðanakönnun Washington Post og ABC News er Scott Walker, ríkisstjóri Wisconsin fylkis. Hann tilkynnti um framboð sitt fyrir viku síðan. Jeb Bush, fyrrum ríkisstjóri Flórída fylkis og bróðir George Bush fyrrum Bandaríkjaforseta, mælist með 12 prósent fylgi. Sjö aðrir frambjóðendur í forvali flokksins fengu þrjú til átta prósent fylgi en alls eru 16 í framboði.
Aldrei hafa verið svo margir frambjóðendur í forvali Repúblikanaflokksins. Því var ákveðið að einungis tíu kæmust að í komandi sjónvarpskappræðum sem sjónvarpsstöðin Fox News stendur fyrir. Þær fyrstu verða haldnar þann 6. ágúst næstkomandi og verður valið í þær eftir mældum vinsældum frambjóðenda í skoðanakönnunum. Niðurstöður kannana í dag skipta því miklu máli, jafnvel þótt kosningabaráttan sé aðeins nýhafin fyrir alvöru.
Vinsældir dvína eftir skot á McCain
Frá því að Trump tilkynnti um framboð sitt til forsetaefnis Repúblikana hefur hann látið hver umdeildu ummælin falla á fætur öðru. Á laugardaginn sagði hann John McCain, öldungardeildarþingmann flokksins og fyrrum forsetaframbjóðanda, ekki vera stríðshetju. Á 7. áratugnum var McCain fangi Norður-Víetnamska hersins í fimm og hálft ár og var pyntaður ítrekað á þeim tíma.
Margir brugðust illa við ummælum Trumps um flokksfélaga sinn, auðkýfingurinn dróg lítillega í land með ásakanir sínar en baðst ekki afsökunar.
Í skoðanakönnun Washington Post og ABC, sem gerð var dagana 16. til 19. júlí, féllu vinsældir Trumps verulega eftir að hann gerði lítið úr John McCain. Blaðamenn Washington Post segja erfitt að meta það á þessum tímapunkti hver þróunin verður á vinsældum Trumps í kjölfar pólitískrar árásar hans á McCain.
Er Trump heimsins stærsta tröll?
Vinsældir Trumps meðal hluta kjósenda Repúblikanaflokksins má meðal annars rekja til óvæginna og harðneskjufullra ummæla hans um innflytjendur í Bandaríkjunum. „Þegar Mexíkó sendir fólkið sitt, þá er það ekki besta fólkið þeirra. Þau senda fólk sem glíma við mörg vandamál og þau taka þessi vandamál með sér. Þau taka með sér fíkniefni og glæpi. Þetta eru nauðgarar,“ sagði Trump í einni umdeildustu ræðu sinni um innflytjendur í Bandaríkjunum frá nágrannaríkinu Mexíkó.
Mörgum þykir afstaða Trump afar fordómafull og fáfróð. Vegna ummæla sinna hefur hann misst sjónvarpssamning og fjölmörg fyrirtæki hafa rift samningum við hann. Engu að síður hafa vinsældirnar haldið áfram að aukast í skoðanakönnunum.
Nate Silver, ritstjóri fréttasíðunnar FiveThirtyEight.com, birti í gær úttekt þar sem hann sagði Trump vera heimsins stærsta „tröll“. Þar á hann við einstakling sem viljandi skapar illdeilur og kallar á athygli með öllum tiltækum ráðum, meðal annars illa ígrunduðum og ögrandi skoðunum. Silver er ósammála ákvörðun fjölmiðilsins Huffington Post um að skilgreina allt sem viðkemur kosningabaráttu Trumps sem skemmtiefni en ekki pólitískar fréttir. „Framboð hans er stjórnmálasaga en ekki eingöngu skemmtiefni,“ segir Silver. „Eftir tólf ár sem blaðamaður á internetinu, þá hef ég lært að hið fornkvæða er satt. Ekki gefa tröllinu að borða. Eina leiðin til þess að drepa tröll eins og Trump er að veita því ekki athygli.“