Samfylkingin, í þeirri mynd sem stofnað var til hennar, er horfin. Hún getur ekki talist breiðfylking þeirra sem eru vinstra megin við miðju í stjórnmálum lengur, en það var meginmarkmiðið með stofnun flokksins fyrir rúmum fimmtán árum. Skipulagt starf flokksins um land allt stendur eftir, en fylgið hefur fokið frá flokknum á undanförnum misserum.
Nú mælist flokkurinn með 10,1 prósent fylgi, litlu minna en Vinstri græn sem mælast með 10,6 prósent. Ólíkt Vinstri grænum glímir Samfylkingin við forystukreppu, en Árni Páll Árnason, formaður flokksins, fékk umboð sitt endurnýjað með aðeins einu atkvæði á síðasta landsfundi flokksins, eftir óvænt mótframboð frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur.
Út á við, fyrir fólk sem ekki tekur þátt í flokksstarfi eða finnur fyrir „miklum samhug“ á fundum flokksins, þá þýða niðurstöður eins og þessar, að þarna fari laskaður flokkur með veikan leiðtoga, sem stór hluti flokksmanna treystir ekki best til að leiða flokkinn.
Spurningin sem forysta Samfylkingarinnar hlýtur að þurfa svara, nú þegar starfið er skipulagt fyrir kosningarnar eftir 18 mánuði, er hvort það geti mögulega verið, að flokkurinn sé búinn að slíta sig frá upphaflegu markmiði sínu, og sé búinn að mála sig út í horn gagnvart kjósendum. Ef svarið er já, verður alltaf erfitt fyrir hann að ná viðspyrnu og fá mikinn byr í segl. Landslagið virðist varanlega breytt frá því sem var, og kjósendur vilja breytingar, eins og fylgi Pírata í könnunum ber með sér, upp á 34,6 prósent.
Er komin upp svipuð staða á vinstri vængnum og var þegar Samfylkingin var stofnuð? Þá slíðruðu ólíkar fylkingar úr Kvennalistanum, Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum sverðin og ákváðu að starfa saman. Flokkurinn fékk góða kosningu árið 2009, 29,8 prósent og 20 þingmenn, en hefur síðan gjörsamlega misst flugið í landsmálunum.
Það verður spennandi að sjá hvernig flokksmenn sjá stöðuna fyrir sér, á þessum síðasta kafla kjörtímabilsins, og í hvaða mynd núverandi Samfylking kemur fram í kosningunum vorið 2017. Í ljósi stöðunnar sem nú er uppi, þá ætti ekki að koma neinum á óvart ef það kemur til breytinga, t.d. sameininga á vinstri vængnum.