Eins og Kjarninn greindi fyrstur fjölmiðla frá í gær, greiddi innanríkisráðuneytið tæpar 2,4 milljónir króna til ráðgjafarfyrirtækisins Argus fyrir sértæka fjölmiðlaráðgjöf vegna Lekamálsins á síðasta ári. Samkvæmt eftirgrennslan Kjarnans kostar útseldur klukkutími fyrir fjölmiðlaráðgjöf um átján þúsund krónur að jafnaði.
Það þýðir að innanríkisráðuneytið hefur keypt 133 klukkustunda vinnu af sérstökum fjölmiðlaráðgjafa vegna Lekamálsins, sé miðað við áðurnefnt meðalverð. Það gerir tæplega sautján heila vinnudaga, sé miðað við átta klukkustunda vinnudag og ríflega þriggja vikna vinnu í beit.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er ekki óalgengt að fjölmiðlaráðgjafar veiti afslátt þegar um svo mikla vinnu er að ræða, þannig að mögulega hafa klukkutímarnir verið fleiri.
Kjarninn sendi innanríkisráðuneytinu fyrirspurn til að forvitnast um á hvaða tímabilum umrædd fjölmiðlaráðgjöf var veitt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, á síðasta ári. Nánar tiltekið óskaði Kjarninn eftir upplýsingum um hvaða daga ráðgjöfin var veitt ráðherra. Í skriflegu svari Jóhannesar Tómassonar, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, kemur fram að ekki sé hægt að svara fyrirspurn Kjarnans að öllu leyti, en „reikningar frá Argus vegna ráðgjafar dreifast yfir mikinn hluta ársins 2014.“
Steingrímur Sævarr Ólafsson, fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 og Pressunnar, var á meðal þeirra sem veitti innanríkisráðherra fjölmiðlaráðgjöf fyrir hönd Argus. Á sama tíma hafði Hanna Birna tvo aðstoðarmenn og aðgang að yfir 20 lögmönnum innanríkisráðuneytisins.