Starfsmenn álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík hafa aflýst boðuðu allsherjarverkfalli sem hefjast átti þann 1. september. Samninganefnd starfsmanna álversins aflýstu verkfallinu því ítrekað hefur komið fram að álverinu verði hugsanlega lokað, komi til verkfallsins. Frá þessu var greint í hádegisfréttum RÚV.
Gylfi Invarsson, talsmaður starfsmanna álversins, segir í samtali við RÚV að þetta hafi verið gert vegna þess að starfsmenn séu í kjarabaráttu „til þess að bæta kjör starfsmanna en ekki til að loka fyrirtækinu“.
Enn fremur sagði hann samninganefndina ekki vera að gefast upp. „Við viljum bara vera með það alfarið á hreinu að við ætlum að reka þessa kjarabaráttu á okkar forsendum en ekki þeirra,“ er haft eftir Gylfa. Enn er í gildi yfirvinnubann starfsmanna fyrirtækisins í Straumsvík og verður það enn í gildi.
Rannveig Rist, forstjori Rio Tinto á Íslandi, sendi starfsmönnum álversins bréf á föstudaginn þar sem rekstrarerfiðleikum fyrirtækisins var lýst og afstaða þess í kjaraviðræðum við starfsmenn sett í samhengi við þá stöðu. ISAL, fyrirtækið sem annast rekstur, álversins í Straumsvík hefur viljað breyta hluta af störfum starfsmanna úr föstum störfum í verktöku. Um það hefur helst verið deilt.