Unity Technologies, sem framleiðir verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur, ekki síst leiki fyrir snjallsíma, er nú að vega og meta hvaða möguleika fyrirtækið hefur til framtíðar. Einn möguleikinn er að fyrirtækið verði selt til nýrra eigenda. Verðmiðinn er á bili einn til tveir milljarðar dala eða sem nemur allt að 240 milljörðum króna. Þetta kom fram á vefsíðunni venturebeat.com fyrir skemmstu.
Íslendingurinn Davíð Helgason (lengst til hægri á meðfylgjandi mynd) er einn eigenda fyrirtækisins og tók þátt í því að stofna það árið 2003, ásamt Dana og Þjóðverja, Joachim Ante og Nicholas Francis. Fyrirtækið hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Í viðtali við Viðskiptablaðið í júlí á þessu ári kom fram hjá Davíð að hann stýrði nú 300 manna fyrirtæki í San Francisco sem teygði anga sína til 15 landa, en Davíð er forstjóri fyrirtækisins.
Davíð er sonur Sigrúnar Davíðsdóttur, fréttakonu RÚV, og hálfbróðir Egils Helgasonar fjölmiðlamanns.
Á síðustu fimm árum hefur velta fyrirtækisins tvöfaldast árlega en rúmlega helmingur þeirra sem þróa forrit fyrir farsíma og spjaldtölvur styðst við tækni Unity, að því er fram kom í viðtali við Davíð í Viðskiptablaðinu.
Davíð sagðist í samtali við Kjarnann ekki geta tjáð sig um þessar fréttir, en sagði að það gengi mjög vel hjá fyrirtækinu og þegar þannig væri þá fylgdi því oft áhugi frá öðrum.