Kínversk-bandaríska líftæknifyrirtækið WuXi Pharma Tech hefur keypt fyrirtækið NextCODE Health, sem áður var dótturfélag Íslenskrar erfðagreiningar, fyrir 65 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 8,4 milljarða króna. Hannes Smárason, forstjóri NextCODE, greindi frá viðskiptunum á Twitter síðu sinni í dag.
Sameinað fyrirtæki mun heita WuXi NextCODE Genomics og verður með starfsemi í Kína, Bandaríkjunum og á Íslandi. Auk Hannesar (COO) verða aðrir stjórnendur Ge Li, Edward Hu, Jeffrey Gulcher, Hongye Sun og Hákon Guðbjartsson. Gulcher var framkvæmdastjóri NextCODE og Hannes var forstjóri þess áður en hann hætti tímabundið árið 2013 vegna ákæru sérstaks saksóknara. Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóri Landspítalans,tók þá við starfinu tímabundið.
Íslensk erfðagreining stofnaði fyrirtækið til að selja sjúkdómsgreiningar til lækna og sjúkrahúsa á bandaríkjamarkaði. WuXi er sams konar fyrirtæki og segir Hannes í samtali við Yahoo að sameinað fyrirtæki geti orðið leiðandi á heimsvísu.
Exciting news to share today as @NextCode joins WuXi to create a global leader in genomic medicine http://t.co/grUGRdaIIQ
— hannes smarason (@hsmarason) January 9, 2015