Á morgun verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sérstaks saksóknara á hendur fyrrverandi sparisjóðsstjóra SPRON og fjórum fyrrverandi stjórnarmönnum sjóðsins. Í ákæru málsins er fimmmenningunum gefið að sök umboðssvik með tveggja milljarða króna lánveitingu til eignarhaldsfélagsins Exista, nokkrum dögum fyrir hrun.
Þeir sem eru ákærðir í málinu eru Guðmundur Örn Hauksson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri og síðar forstjóri SPRON, stjórnarmennirnir Ari Bergmann Einarsson, Jóhann Ásgeir Baldurs, Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, og Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. október síðastliðinn. Guðmundur Örn, Margrét og Ari Bergmann mættu við þingfestinguna og neituðu öll sök í málinu. Rannveig Rist og Jóhann Ásgeir munu þar af leiðandi lýsa afstöðu sinni til sakagifta við fyrirtöku málsins á morgun.
Kjarninn fjallaði ítarlega um ákæru Sérstaks saksóknara á hendur fimmmenningunum þann 9. október síðastliðinn.