Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, sem var bæjarstjóri Hafnarfjarðar um tveggja ára skeið, hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Hún mun hefja störf þann 1. maí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.
Guðrún Ágústa sat í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir Vinstri græna frá árinu 2006 og var bæjarstjóri Hafnarfjarðar frá júní 2012 til júní 2014. Hún er með BA gráðu bókmennta- og fjölmiðlafræði og var kennari við Flensborgarskóla í fjölda ára. Guðrún Ágústa hefur verið verkefnisstjóri stefnumótunar hjá Strætó bs. síðan í október 2014. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í stjórnum og ráðum á vegum Hafnarfjarðarbæjar, en mun láta af öllum embættum á hinum pólitíska vettvangi áður en hún kemur til starfa hjá ASÍ.