Fjárhagsvandræði Ríkisútvarpsins (RÚV) er nútíðarvandi, ekki fortíðarvandi og staðhæfingar núverandi framkvæmdarstjórnar fyrirtækisins um annað eru rangar. Ef hagræðingaraðgerðir Páls Magnússonar, fyrrum útvarpsstjóra, sem lagt var af stað með í nóvember 2013 hefðu verið framkvæmdar til fullnustu hefði verið komið á jafnvægi í rekstri RÚV á yfirstandandi rekstrarári og ekkert gjaldfall verið á skuldum. Þetta segir Bjarni Kristjánsson, fyrrum fjármálastjóri RÚV, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Bjarni hætti störfum hjá RÚV í vor eftir um sjö ára starf hjá fyrirtækinu.
Greiðsluvandi RÚV hefur verið mikið í sviðsljósinu eftir að fyrirtækið gat ekki greitt af skuldabréfi sem var á gjalddaga 1. október síðastliðinn. Í tilkynningu sem RÚV sendi frá sér í kjölfarið var eftirfarandi haft eftir Magnúsi Geir Þórðarsyni, útvarpsstjóra: „Það er ljóst að við erum ekki enn laus við þann fortíðarvanda sem RÚV hefur lengi glímt við. Sjálfstæð fjárhagsleg úttekt staðfestir að RÚV er of mikil og það eru vonbrigði að sjá að rekstur RÚV var ekki kominn í jafnvægi eftir niðurskurðaraðgerðir fyrri framkvæmdastjórnar“.
Segir forsvarsmenn RÚV koma sök á Pál
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag hafnar Bjarni Kristjánsson,fyrrum fjármálastjóri RÚV, því að um fortíðarvanda sé að ræða. Þar segir Bjarni: „Undanfarnar vikur hafa forsvarsmenn RÚV freistað þess að koma sök á fjárhagsvanda RÚV á fyrrverandi útvarpsstjóra, Pál Magnússon. Umtalsverður taprekstur hafi verið hjá félaginu árum saman og skuldir hrannast upp. Þá hafi síðustu hagræðingar Páls ekki dugað til. Þessar staðhæfingar eru allar rangar.“
Hann rekur síðan helstu tölur úr rekstri RÚV undanfarin ár og segir þær sýna að sá vandi sem RÚV standi frammi fyrir þessa dagana sé „því nútíðarvandi en ekki fortíðarvandi“. Bjarni segir Pál Magnússon, fyrrum útvarpsstjóra og samstarfsmann hans til margra ára, hafa tekist á við endalausa niðurskurði ár eftir ár en alltaf komið rekstrinum strax í jafnvægi. „Það er því enginn vafi að hefðu þær hagræðingaraðgerðir, sem Páll skipulagði og var byrjaður á í nóvember 2013 - og stjórnin með núverandi útvarpsstjóra innanborðs samþykkti - verið framkvæmdar til fullnustu hefði aftur verið komið á jafnvægi í rekstri félagsins á yfirstandandi rekstrarári - og ekkert gjaldfall orðið á skuldum. Stjórnin og núverandi útvarpsstjóri kusu hins vegar að fylgja framkvæmdinni ekki eftir og efndu þar að auki til mikilla útgjalda sem ekki voru á áætlun. Veldur sá er á heldur,“ segir Bjarni að lokum í grein sinni.