Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, sem var framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands um fimm ára skeið frá 2015 til 2020, hefur verið ráðin aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. Hún var bæjarfulltrúi Vinstri grænna í Hafnarfirði á árunum 2006 tl 2015 og bæjarstjóri í sveitarfélaginu 2012 til 2014. Guðrún Ágústa hefur þegar hafið störf í ráðuneytinu.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Guðrún Ágústa hafi lokið BA prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og diplómanámi í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla árið 1993. Þá lauk hún námi í kennsluréttindum árið 2000 og diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands 2021. Hún starfaði einnig um tíma hjá Strætó.
Guðmundur Ingi hefur einnig ákveðið að ráða Ólaf Elínarsson í hitt aðstoðarmannastarf sitt. Ólafur starfaði sem sviðsstjóri markaðsrannsókna hjá Gallup frá 2017 og áður sem viðskiptastjóri hjá sama fyrirtæki frá 2007-2017. Þar áður var hann sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Ólafur hefur kennt við bæði Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík frá árinu 2002. Ólafur er með BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands og situr í stjórn UN Women. Ólafur hefur störf síðar í mánuðinum.
Auk þess var sett inn heimild fyrir ríkisstjórnina að ráða þrjá aðstoðarmenn til viðbótar ef þörf krefur. Í lögunum segir að „meginhlutverk aðstoðarmanns ráðherra er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra.“
Ekki þarf að auglýsa aðstoðarmannastöður heldur eru þeir sem sinna þeim störfum valdir af hverjum ráðherra fyrir sig, enda oftast um að ræða nánustu samstarfsmenn ráðherra á meðan að hann gegnir embætti.
Alls má ríkisstjórnin því ráða 27 aðstoðarmenn sem stendur. Laun og starfskjör aðstoðarmanna ráðherra miðast við kjör skrifstofustjóra í ráðuneytum samkvæmt ákvörðunum kjararáðs.