Sérstakur saksóknari hefur ákært Boga Örn Emilsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra DV, fyrir meiriháttar skattalagabrot. Meint brot hans varða hátt í 43 milljónir króna að því er fram kemur í ákæru málsins, sem Kjarninn hefur undir höndum.
Bogi Örn er ákærður sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Skjals til 31. mars árið 2010, og sem stjórnarformaður félagsins frá 29. júlí 2010. Tveir aðrir fyrrverandi framkvæmdastjórar félagsins eru sömuleiðis ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot, en brot þeirra varða annars vegar rúmar 5,9 milljónir króna og hins vegar ríflega sjö milljónir króna.
Þremenningunum er gefið að sök brot á lögum um virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda í rekstri einkahlutafélagsins Skjal. Sérstakur saksóknari krefst refsingar yfir þeim og að þeir verði dæmdir til greiðslu alls sakarkostnaðar, en brot þremenninganna varða allt að sex ára fangelsi.