Þórhallur B. Jósepsson, sem starfaði um árabil sem fréttamaður hjá RÚV, er raddlaus eftir skurðaðgerð sem hann gekkst undir í júlímánuði þar sem ofvaxinn skjaldkirtill var fjarlægður.
Þórhallur, sem nú starfar hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, hefur sent embætti Landlæknis kvörtunarbréf vegna málsins, þar sem hann segir að Landspítali hafi brotið á lagarétti sínum til bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á með því að hafa ekki staðið rétt að undirbúningi og framkvæmd aðgerðarinnar.
Lífsnauðsynleg aðgerð
Læknir sendi Þórhall í umrædda aðgerð vegna ofvaxins skjaldkirtils sem farinn var að þrengja að öndunarvegi hans, en Þórhallur hafði þá átt við mikla mæði að stríða að undanförnu. Eftir tölvusneiðmyndatöku var ákveðið að senda hann í aðgerð á Landspítalann, Göngudeild 10E við Hringbraut. Læknir þar tók ákvörðun um að fresta aðgerðinni um rúma viku vegna blóðþynningarlyfs sem Þórhallur var á, svo áhrif þess gætu fyrst fjarað út.
Frestunin varð til þess að annar læknir framkvæmdi aðgerðina á Þórhalli, og fór hún fram 15. júlí síðastliðinn á Landspítalanum við Hringbraut.
Þegar Þórhallur vaknaði eftir aðgerðina komst hann fljótlega að raunum um að rödd hans var farin og var honum tjáð í kjölfarið að taug í vinstra raddbandið hefði klofnað í aðgerðinni og tilraunir til að gera við hana hefðu ekki borið árangur.
Í kjölfarið var Þórhallur sendur til sérfræðinga á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítalans í Fossvogi. Þar gekkst hann tvívegis undir bráðabirgðaaðgerðir í ágústmánuði síðastliðnum þar sem reynt var að lagfæra raddbandið, sem ekki báru árangur. Þórhallur gekkst svo undir þriðju aðgerðina í nóvember.
Raddmissirinn valdið miklum óþægindum
„Sú aðgerð skilaði þeim árangri að raddböndin færðust saman, en röddin endurheimtist ekki. Hef ég eftir það farið í nokkra tíma hjá talmeinafræðingi, en enn er þó engin rödd komin. Þótt ég geti myndað einhver hljóð, eiga þau ekkert skylt við þá rödd sem ég hafði áður,“ segir Þórhallur B. Jósepsson í samtali við Kjarnann.
Hann segir raddmissinn hafa valdið sér miklum óþægindum. Fyrir utan almennt skert lífsgæði sé ástandið sömuleiðis mjög hamlandi í hans daglegum störfum. Þá muni hann að óbreyttu ekki gera fleiri sjónvarps- eða útvarpsþætti sem hafi verið hans ær og kýr undanfarin ár er hann starfaði sem fréttamaður á RÚV, en vorið 2014 samdi hann auk þess um gerð tólf sjónvarpsþátta fyrir sjónvarpsstöðina ÍNN og náði að klára þrjá þeirra áður en hann missti röddina.
Telur að brotið hafi verið á rétti sínum
Eins og áður segir hefur Þórhallur sent embætti landlæknis bréf þar sem hann segir farir sínar ekki sléttar. Bréfið var sent embættinu þann 23. febrúar síðastliðinn. Þar segir Þórhallur að brotið hafi verið á lagarétti sínum til bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á með því að vera sendur í aðgerð hjá Landspítalanum á Hringbraut, þar sem ekki sé að finna sömu sérfræðiþekkingu og þjálfun til aðgerða af því tagi sem hann gekkst undir.
Þá sé sömuleiðis til staðar tækjabúnaður hjá Landspítalanum í Fossvogi sem hefði getað komið í veg fyrir þann skaða sem hann varð fyrir. Þá gagnrýnir hann að tækjabúnaðurinn, sem sé lítill og meðfærilegur litlu stærri en fartölva, hafi ekki verið færður úr Fossvogi yfir á Hringbraut þar sem aðgerðin fór fram. Þórhallur kveðst hafa fengið staðfest að líkur á sambærilegu óhappi og hann varð fyrir séu 41 prósent minni með notkun umrædds tækjabúnaðar.
Að öllu samanlögðu telur Þórhallur að Landspítalinn hafi ekki farið rétt að við undirbúning og framkvæmd aðgerðarinnar sem hann gekkst undir. Embætti landlæknis hefur staðfest mótttöku erindi Þórhalls, en ekkert formlegt svar við því hefur enn borist. Í samtali við Kjarnann kveðst Þórhallur bíða niðurstöðu landlæknis. Ekkert hafi verið ákveðið með framhaldið, en ljóst sé að röddin hans komi ekki aftur.