Jón Þórisson, sem var ritstjóri Fréttablaðsins frá haustið 2019 og fram í ágúst í fyrra, er kominn aftur til starfa hjá útgáfufélagi blaðsins, Torgi. Hann hefur tekið til starfa sem forstjóri útgáfufélagsins, sem heldur einnig úti DV, Hringbraut og tengdum miðlum. Jón á lítinn hluti í Torgi, sem er annars að uppistöðu í eigu fjárfestisins Helga Magnússonar.
Á vef Fréttablaðsins segir að Jón taki við forstjórastarfinu af Birni Víglundssyni, sem hefur gegnt því starfi frá því í september 2020. Í fréttinni kemur fram að Björn hafi sagt upp störfum í nóvember í fyrra en verði fyrirtækinu áfram innan handar næstu mánuði.
Hafa sett 1,5 milljarða króna í Torg
Jón var hluti af hópi fjárfesta sem keypti sig inn í rekstur Torgs á árinu 2019. Alls hefur sá hópur, sem leiddur er af Helga Magnússyni, sett 1,5 milljarða króna í kaup á Torgi og hlutafjáraukningar á því tveimur og hálfu ári sem liðið er frá því að aðkoma þeirra hófst. Þeir fjármunir hafa af uppistöðu komið frá Helga sem á tæplega 93 prósent í Torgi. Hann setti síðast 300 milljónir króna inn í reksturinn í byrjun árs, en Kjarninn greindi frá því í gær að Helgi eigi á sjöunda milljarð króna í eigið fé inni í tveimur félögum, eftir að hafa selt sex prósent hlut í Bláa lóninu í fyrrahaust.
Þegar Jón hætti sem ritstjóri Fréttablaðsins í fyrrasumar tók Sigmundur Ernir Rúnarsson við starfinu. Þá sagðist hann ætla að fara að snúa sér að öðrum verkefnum.
Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að rekstrartap Torgs, hafi verið 688,7 milljónir króna á árinu 2020. Árið áður var rekstrartap félagsins 197,3 milljónir króna og því nam sameiginlegt rekstrartap þess á tveimur árum 886 milljónum króna.
Þegar vaxtagjöldum vegna lána sem Torg hefur þurft að borga af og gengismun er bætt við kemur í ljós að tap af reglulegri starfsemi fyrir skatta var um 750 milljónir króna á síðasta ári og rúmlega einn milljarður króna á tveimur áður.
Minna upplag og lestur á leið undir 30 prósent
Flaggskipið í útgáfu Torgs er Fréttablaðið. Útgáfudögum þess var fækkað úr sex í fimm á viku á árinu 2020 þegar hætt var með mánudagsútgáfu blaðsins. Auk þess hefur dreifing fríblaðsins dregist saman úr 80 í 75 þúsund eintök á dag.
Lestur Fréttablaðsins mældist 30,1 prósent í desember. Hann hefur dalað jafnt og þétt undanfarin ár en í apríl 2007 var hann 65,2 prósent og hélst yfir 50 prósent þangað til í desember 2015. Síðsumars 2018 fór lesturinn svo undir 40 prósent í fyrsta sinn og stefnir nú undir 30 prósent á næstu mánuðum, en frá byrjun árs 2018 hefur lestur Fréttablaðsins aukist á milli mánaða í sex skipti en dalað 39 sinnum.
Í aldurshópnum 18 til 49 ára mælist lesturinn nú 20,9 prósent og er nú um þriðjungur þess sem hann var fyrir tólf árum.