Jack Warner, fyrrverandi varaforseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, sendi frá sér myndband á Youtube í gær þar sem hann svarar þáttastjórnandanum John Oliver og gagnrýni Olivers á hann.
Warner, sem er grunaður um víðtæka spillingu og hefur meðal annars verið eftirlýstur af Interpol, hefur undanfarið notast við myndbönd til að svara fyrir sig, en hann keypti tíma á sjónvarpsstöðinni TV6 í Trínidad og Tóbagó, heimalandi sínu, þar sem hann sagðist óttast um líf sitt og að hann hefði sannanir um spillingu annarra innan FIFA.
Hér má sjá upprunalegt myndband Warners, sem birtist fyrir viku síðan.
John Oliver, þáttastjórnandi þáttarins Last Week Tonight, keypti í kjölfarið tíma á sjónvarpsstöðinni á miðvikudag þar sem hann svaraði Warner og krafðist þess að hann greindi frá allri spillingu innan FIFA. Oliver hefur áður gagnrýnt FIFA harðlega í þáttum sínum. Hér má sjá myndband Oliver.
Warner reiddist greinilega bæði sjónvarpsstöðinni og Oliver, og birti annað myndband til að svara fyrir sig á ný. Hann sagðist meðal annars ekki þurfa nein ráð frá amerískum kjána og grínista, sem geri lítið úr Trinídag og Tóbagó. Undir ræðu Warners er dramatísk tónlist og hann segist ætla að halda fund þar sem hann greini frekar frá málunum. Eftir að myndbandið birtist var því hins vegar eytt, en tekið hafði verið afrit af því og það má sjá hér að neðan.