Tveir varaþingmenn Pírata, þær Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir og Lenya Rún Taha Karim, tóku sæti á Alþingi í dag fyrir þingmennina Björn Leví Gunnarsson og Andrés Inga Jónsson. Gunnhildur Fríða er 19 ára og 240 daga gömul og því yngri en nokkur varaþingmaður sem hefur sest á þing til þessa – og fyrsta manneskjan sem fædd er á 21. öldinni sem tekur sæti á þingi, en hún fæddist árið 2002.
Lenya Rún er 22 ára og 9 daga gömul, fædd 1999 og er því fimmta yngsta manneskjan sem tekur sæti á Alþingi sem varamaður, samkvæmt lista sem yfir það er haldinn á vef Alþingis.
Í kosningunum í lok september var um tíma útlit fyrir að hún yrði uppbótarþingmaður Pírata í Reykjavík og þá um leið sú yngsta til að ná kjöri til Alþingis frá upphafi, en eftir að atkvæði voru talin á ný í Norðvesturkjördæmi varð það ekki raunin.
Áður en Gunnhildur Fríða varð yngsti varamaðurinn á Alþingi frá upphafi í dag hafði Karl Liljendal Hólmgeirsson getað státað af því að hafa verið yngstur er hann tók sæti á þingi, en hann fæddist árið 1997 og kom inn á þing fyrir Miðflokkinn árið 2018, þá 20 ára og 355 daga gamall.
Yngstu varaþingmenn sögunnar:
- Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, fædd 2002, kemur á þing 2021, aldur 19 ár og 240 dagar.
- Karl Liljendal Hólmgeirsson, fæddur 1997, kemur á þing 2018, aldur 20 ár og 355 dagar.
- Bjarni Halldór Janusson, fæddur 1995, kemur á þing 2017, aldur 21 ár og 142 dagar.
- Víðir Smári Petersen, fæddur 1988, kemur á þing 2010, aldur 21 ár og 328 dagar.
- Lenya Rún Taha Karim, fædd 1999, kemur á þing 2021, aldur 22 ár og 9 dagar.
- Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, fædd 1996, kemur á þing 2018, aldur 22 ár og 84 dagar.
- Sigurður Magnússon, fæddur 1948, kemur á þing 1971, aldur 23 ár og 167 dagar.
- Ásta Guðrún Helgadóttir, fædd 1990, kemur á þing 2014, aldur 24 ára og 34 dagar.
- Helgi Seljan, fæddur 1934, kemur á þing 1958, aldur 24 ár og 37 dagar.
- Sigríður María Egilsdóttir, fædd 1993, kemur á þing 2018, aldur 24 ár og 132 dagar.
- Einar K. Guðfinnsson, fæddur 1955, kemur á þing 1980, aldur 24 ár og 134 dagar.