Sonja Jógvansdóttir, samkynhneigð færeysk baráttukona, var einn sigurvegara færeysku þingkosninganna sem fram fóru í gær. Í Færeyjum kjósa kjósendur bæði flokka og staka einstaklinga og hlaut Sonja þriðja mesta fjölda atkvæða einstaklinga á eftir formönnum þeirra tveggja flokka sem unnu mestan kosningarsigur. Formenn fráfarandi stjórnarflokka fengu báðir færri atkvæði en Sonja. Með árangri sínum brýtur Sonja blað í sögu Færeyja því hún er fyrsti opinberlega samkynhneigði einstaklingurinn til að setjast á færeyska þingið.
Samsteypustjórn Kaj Leo Johannessen, fráfarandi lögmanns Færeyja, féll í kosningunum. Sambandsflokkur hans hlaut tæplega 19 prósenta fylgi og sex þingmenn. Fólkaflokkurinn fékk svipað fylgi en Framsókn og Miðflokkurinn fengu tvo þingmenn hvor. Þá náði Þjóðveldisflokkurinn sjö þingmönnum inn á þing. Nýtt sjálvstýri fékk síðan tvo þingmenn.
Javnaðarflokkurinn, undir forystu Aksel V. Johannesen, var hins vegar sigurvegari kosninganna og allar líkur á því að Aksel verði næsti lögmaður Færeyja. Flokkurinn fékk um 25 prósent atkvæða og náði átta mönnum inn á þing.
Niðurstaðan þýðir að fráfarandi stjórn vantaði einn þingmann til að halda meirihluta, fékk sextán þingmann af 33.
Jenis av Rana, formaður Miðflokksins í Færeyjum, var endurkjörinn á þing. Hann er Íslendingum góðkunnur eftir að hafa neitað að sitja veislu með Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra Íslands, og eiginkonu hennar, Jóninu Leósdóttur, vegna samkynhneigðar þeirra. Jenis taldi heimsókn Jóhönnu "hreina ögrun" þar sem hún væri "ekki í samræmi við heilaga ritningu".