Sonja Jógvansdóttir þingmaður er hætt í Jafnaðarmannaflokki Færeyja, en hún tilkynnti formanninum og lögmanninum Aksel V. Johannesen þetta í gær. Sonja varð í byrjun september fyrsti opinberlega samkynhneigði einstaklingurinn til þess að vera kjörinn á færeyska þingið.
Ástæðan er sú að borgaralegar hjónavígslur fyrir samkynhneigða eru ekki í stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar í Færeyjum. Eitt af málunum sem Sonja lagði hvað mesta áherslu á í kosningabaráttu sinni voru réttindi samkynhneigðra. Hún skrifaði á Facebook-síðu sína í gærkvöldi að hún gæti ekki sem samkynhneigð kona tilheyrt flokki sem kæmi í veg fyrir þessa réttindabót. Hún vissi að margir í flokknum væru fylgjandi því að breyta lögunum en hún vildi ekki vera hluti flokks þar sem fordómar nokkurra komi í veg fyrir réttindi minnihlutahópa. Hún mun þó áfram verja stjórnina falli því hún vilji halda meirihluta vinstriflokka við völd.
Í Færeyjum kjósa kjósendur bæði flokka og staka einstaklinga og hlaut Sonja þriðja mesta fjölda atkvæða einstaklinga á eftir formönnum þeirra tveggja flokka sem unnu mestan kosningarsigur. Formenn fráfarandi stjórnarflokka fengu báðir færri atkvæði en Sonja. Með árangri sínum braut hún blað í sögu Færeyja því hún er fyrsti opinberlega samkynhneigði einstaklingurinn til að setjast á færeyska þingið.
Javnaðarflokkurinn, undir forystu Aksel V. Johannesen, var sigurvegari kosninganna í byrjun mánaðarins. Flokkurinn fékk um 25 prósent atkvæða og náði átta mönnum inn á þing. Samsteypustjórn Kaj Leo Johannessen, fráfarandi lögmanns Færeyja, féll í kosningunum. Sambandsflokkur hans hlaut tæplega 19 prósenta fylgi og sex þingmenn. Fólkaflokkurinn fékk svipað fylgi en Framsókn og Miðflokkurinn fengu tvo þingmenn hvor. Þá náði Þjóðveldisflokkurinn sjö þingmönnum inn á þing. Nýtt sjálvstýri fékk síðan tvo þingmenn. Það munaði aðeins einum þingmanni að fráfarandi stjórn næði að halda meirihlutanum.
Að sumu leyti er stefnuskrá nýja meirihlutans, Jafnaðarmannaflokksins, Þjóðveldisflokksins og Framsóknar, róttæk. Þar er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu um breytta stjórnskipun sem á að tryggja Færeyingum fullveldi. Þá er kveðið á um það að breytingar verði gerðar á fiskveiðistefnu og fiskur skuli verða skilgreindur sem eign þjóðarinnar. Viðskipti með veiðiréttindi og aflaheimildir eigi því ekki að eiga sér stað á almennum markaði.
Þá vilja flokkarnir bæta aldurs- og kynjasamsetningu færeysku þjóðarinnar, en ungt fólk og konur hafa flutt frá Færeyjum undanfarin ar.