Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans hefur ákveðið að lækka hámarks veðsetningarhlutfall fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90 prósentum niður í 85 prósent, en hámarksveðsetningarhlutfall annarra kaupenda verður áfram 80 prósent. Það þýðir að fyrstu kaupendur munu þurfa að geta reitt fram að minnsta kosti 15 prósent af kaupverði eignar í útborgun, í stað 10 prósenta áður.
Þetta segir fjármálastöðugleikanefnd að sé gert til þess að „gæta að viðnámsþrótti lántakenda og lánveitenda“ í ljósi þess að fasteignaverð hefur áfram hækkað á þessu ári, umfram langtímaþætti á borð við launaþróun, byggingarkostnað og leiguverð.
„Við teljum að það sé ekki heppilegt að fyrstu kaupendur komi inn með 90 prósenta lánum, þess vegna erum við að gera þetta,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar, sem hófst kl. 9:30.
Setur viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar
Fjármálastöðugleikanefndin setur einnig fram viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum sínum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Vextirnir sem lánveitendum er gert að horfa til verða nú að lágmarki 3 prósent fyrir verðtryggð lán og 5,5 prósent fyrir óverðtryggð íbúðalán.
„Aukinheldur hefur nefndin ákveðið að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Breytingum á greiðslubyrðarhlutfalli er ætlað að efla áhættuvitund lántakenda við val þeirra milli lánsforma en greiðslubyrði verðtryggðra lána er hlutfallslega léttari í upphafi en þyngri eftir því sem líður á lánstímann. Markmið framangreindra aðgerða er að takmarka uppsöfnun kerfisáhættu í fjármálakerfinu,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar, sem birt var í morgun.
Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að viðnámsþróttur kerfislega mikilvægu bankanna sé mikill og að eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra sé vel yfir lögbundnum mörkum. Nefndin segir að gæta þurfi þess að að vaxandi efnahagsumsvifum fylgi ekki „yfirdrifin áhættusækni og óhóflegur vöxtur útlána sem gæti veikt viðnámsþrótt fjármálakerfisins“. Fjármálastöðugleikanefnd nefnir einnig að ef bakslag verði í alþjóðlegum efnahagsbata gæti það haft áhrif á fjármálastöðugleika hérlendis.
Í yfirlýsingu nefndarinnar segir einnig frá því að hún hefur ákveðið að halda sveiflujöfnunaraukanum óbreyttum, en áður hafði nefndin ákveðið í september í fyrra að hækka aukann úr 0 prósent upp í 2 prósent í september á þessu ári. Sú tímalína stendur óhögguð.
Fjármálastöðugleikanefnd áréttar svo í yfirlýsingu sinni mikilvægi þess að „auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar“ og segist áfram munu beita þeim stýritækjum sem hún hafi yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika, „þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.“