Landhelgisgæslan á 212 vopn, en af þeim eru 120 ekki lengur í notkun. Áætlað var að hríðskotabyssurnar hundrað sem gæslan átti að fá frá norska hernum kæmu í stað þeirra sem aflögð hafa verið og því hafi gjöfin ekki átt að fjölga vopnakostum. Landhelgisgæslan hefur endurnýjað vopn sín töluvert á síðust árum. Árið 2011 fékk hún 50 MP5A2N 9 millimetra byssur gefins frá norska hernum, árið 2012 keypti hún fimm Glock 17 skammbyssur af umboðsaðila hérlendis á 103 þúsund krónur stykkið og árið 2013 fékk hún tíu MG3 hríðskotabyssur gefnar frá norska hernum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, um vopnaöflun og vopnaeign Landhelgisgæslunnar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Í svarinu kemur einnig fram að "innkaup, sala, innflutningur og útflutningur vopna, sem og skotfæragerð, er háð samþykki forstjóra Landhelgisgæslunnar. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsvið annast vörslu vopna Landhelgisgæslunnar og ber á þeim ábyrgð".
Katrín spurði einnig hvort Landhelgisgæslan hefur yfir öðrum vopnum að ráða en skotvopnum. Í svarinu segir að gæslan "hefur yfir að ráða handjárnum, piparúða og kylfum. Handjárn eru notuð á handtekinn einstakling ef hætta er á flótta eða ætla má að öryggi hans eða annarra verði ekki tryggt með öðrum hætti. Piparúða og kylfur er heimilt að nota þegar vægari aðferðir duga ekki til þess að yfirbuga mótþróa einstaklings við handtöku".
Skráð vopn hjá Landhelgisgæslunni
Vopnaeign. Tegund | Hlaupvídd | Fjöldi | Árgerð, upplýsingar |
MP-5 | 9 mm | 50 | Árgerð 1990. Gjöf frá Norðmönnum 2011. |
Glock | 9 mm | 20 | Árgerð 1990, 2006 og 2012. Keypt af umboði í Reykjavík. |
Bofors L 60 40 mm fallbyssa | 40 mm | 4 | Árgerð 1936. Gjöf frá Dönum. |
MG-3 | 7,62 mm | 10 | Árgerð 1990. Gjöf frá Norðmönnum 2013. |
Steyr riffill | 7,62 mm | 8 | Árgerð 1989. Keypt af umboði í Reykjavík. |
Samtals | 92 | ||
Ekki lengur í notkun: | |||
Remington | no. 12 | 4 | Árgerð 2000. Keypt af umboði í Reykjavík. |
Smith&Wesson 38 Police special | 38 cal. Special | 21 | Árgerð 1940. Ekki í notkun. Marshall aðstoð |
Enfield riffill | 303 cal. | 10 | Árgerð 1910. Ekki í notkun. Ekki vitað um uppruna. |
G-3 | 7,62 mm | 20 | Árgerð 1959. Ekki í notkun. Gjöf frá Dönum 2006. |
Fallbyssa 37 mm | 37 mm | 3 | Árgerð 1898. Ekki í notkun. Gjöf frá Dönum. |
Carabine M1 0.30 cal | 7,62 mm | 30 | Árgerð 1940. Lánaðar lögreglunni í Reykjavík 1986. Ekki í notkun. |
Carabine M2 0.30 cal | 7,62 mm | 20 | Árgerð 1940. Lánaðar lögreglunni í Reykjavík 1986. Ekki í notkun. |
Fallbyssa 47 mm | 47 mm | 3 | Árgerð 1909. Ekki í notkun. Gjöf frá Dönum. |
Fallbyssa 57 mm | 57 mm | 5 | Árgerð 1892. Ekki í notkun. Gjöf frá Dönum. |
Browning M2 12,7 mm | 12,7 mm | 3 | Árgerð 1939. Ekki í notkun. Kom með flugbát sem LHG var með í rekstri. |
3 Pr Hotchkiss fallbyssa 47 mm | 47 mm | 1 | Árgerð 1912. Ekki í notkun. Á safni á Ísafirði. |
Samtals | 120 | ||
Heildarfjöldi | 212 |
Vopn sem Landhelgisgæslunni hefur áskotnast síðastliðinn áratug
2006 | 4 stk. Glock 17 skammbyssur | Keyptar af umboðsaðila hér á landi (55.000 kr. stk. með virðisaukaskatti). |
2006 | 4 stk. Remington no 12 haglabyssur | Keyptar af umboðsaðila hér á landi (37.000 kr. stk. með virðisaukaskatti). Aflagðar. |
2006 | 20 stk. G3 rifflar | Gjöf frá danska hernum. Aflagðir. |
2011 | 50 stk MP-5 A2N 9 mm x 19 | Gjöf frá norska hernum. |
2012 | 5 stk. Glock 17 skammbyssur | Keyptar af umboðsaðila hér á landi (103.538 kr. stk. með virðisaukaskatti). |
2013 | 10 stk. MG3 hríðskotabyssur | Gjöf frá norska hernum. |