Breytt skipan ráðuneyta í nýrri ríkisstjórn gæti kostað ríkissjóð allt að 1,77 milljörðum króna á þessu kjörtímabili. Kostnaðurinn fer aðallega í fjölgun starfa sem fylgir breyttu skipulagi, þar á meðal ritara, bílstjóra og aðstoðarmanna nýrra ráðherra. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, sem birtist á vef Alþingis í dag.
Fyrirspurn Helgu var í nokkrum liðum, en í þeim fyrsta var spurt um árlegan viðbótarkostnað ríkissjóðs við að fjölga ráðherrum um tvo, líkt og ríkisstjórnin hefur gert. Samkvæmt Svari Bjarna er áætlaður heildarlaunakostnaður vegna þess 13 milljónir króna fyrir hvern ráðherra, en honum fylgja tveir aðstoðarmenn sem kosta 43 milljónir króna árlega, auk ritara sem kosta 11 milljónir króna og bílstjóra sem kosta 14 milljónir króna.
Til viðbótar er einnig kostnaður fólgin í stofnun tveggja nýrra ráðuneyta, þar sem ráðuneytisstjórum og almennum starfsmönnum þeirra muni fjölga, auk þess sem annar rekstrarkostnaður og leiga á húsnæði fellur til. Svo er einnig talinn með kostnaður við 30 milljóna kaup á búnaði og tækjum fyrir bæði ráðuneytin og 40 milljóna króna aukafjárheimild vegna óvissu. Samtals nemur heildarfjárheimildin 450 milljónum króna.
Helga spurði einnig hvernig kostnaðurinn skiptist upp í launakostnað og annan kostnað vegna breytinga á skrifstofuhúsnæði. Samkvæmt svari Bjarna er stærsti hlutinn, eða um 84 prósent, vegna fjölgunar starfa, en viðbótarkostnaður vegna breytinga á húsnæði er talinn vera takmarkaður þar sem þegar var hafin vinna við að færa starfsemi Stjórnarráðsins yfir í nýtt húsnæði.
Bjarni áætlaði að uppsafnaður viðbótarkostnaður fyrir allt kjörtímabilið í heild sinni myndi nema 1,77 milljörðum króna, en bætti þó við að kostnaðurinn gæti orðið nokkru hærri ef nýta þurfti svigrúm fyrir óvissu í áætluninni. Á móti vegi að Stjórnarráðið hygðist ráðast í endurskipulagningu á fyrirkomulagi stoðþjónustu ráðherra, en samkvæmt honum gæti slík breyting leitt til aukins hagræðis í rekstri, sem ekki sé tekið tillit til í þessum tölum.