Síðastliðinn fimmtudag birtist ágætt viðtal við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu sem Ómar Friðriksson blaðamaður tók. Það var ítarlegt og í því kom fram skýrt stöðumat Bjarna á stjórnmálin og efnahagslífið. Ómar kann sitt fag, svo mikið er víst.
Eitt af því sem upp úr stendur í viðtalinu, eru þau miklu tímamót sem framundan eru í viðskiptalífinu, þegar kemur að því að losa um fjármagnshöft, endurskipuleggja fjármálakerfið og losa um krónuspennuna sem tengist slitabúum föllnu bankanna.
Ríkissjóður mun fá mörg hundruð milljarða út úr þessum aðgerðum, að öllum líkindum, og það getur orðið snúið fyrir stjórnmálamenn að standast ýmsar freistingar. Vonandi tekst þeim það, því það mun reyna mikið á að stýra ríkissjóði með ábyrgð að leiðarljósi og velmegun komandi kynslóða.
Bjarni virðist gera sér grein fyrir þessu, ef marka má það sem fram kom í viðtalinu. En svo má ekki gleyma því að kosningar eru ekki svo langt undan, vorið 2017, og stjórnmálamenn eiga það stundum til að lofa öllu fögru fyrir þær.