Það hefur verið ákvörðun að byggja upp landbúnaðinn á því að treysta á stöðugt framboð erlendis frá til þess að halda uppi framleiðslu á mikilvægum afurðum. „Með því að treysta á það að við fáum þau aðföng sem við þurfum erlendis frá höfum við ákveðið að byggja ekki upp innlenda kornrækt, ekki fjárfest í kynbótum eða öðrum þeim innviðum sem til þarf,“ skrifar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í grein í Morgunblaðinu í dag. Þessu segir hún hægt að breyta þannig að innlend kornrækt leggi til aukið hlutfall þeirra aðfanga sem þarf til þess að fæða Íslendinga. Til þess þurfi að setja rétta hvata í kerfið. „Með aukinni korn-rækt eflum við fæðuöryggi.“
Hækkanir á áburðarverði „sem eiga sér vart sögulega hliðstæðu“ og innrás Rússa í Úkraínu hafa sett alþjóðlega hrávörumarkaði í uppnám, skrifar Svandís, og „nú birtast okkur verðbólutölur frá Evrópu sem eiga sér ekki fordæmi á þessari öld“.
Hún skrifar að eðlilega hafi þetta vakið umræðu um það hver áhrifin kunni að verða hér á landi og jafnvel hvort við munum fá öll þau aðföng sem við þurfum.
„Það kann að vera að við verðum brátt vör við einhverjar raskanir, verðhækkanir eða jafnvel breyttar uppskriftir. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess á þessum tímapunkti að aðfangakeðjan rofni með þeim hætti að fæðuöryggi Íslendinga sé ógnað.“
Alþjóðavæðingin hefur haft í för með sér aukna hagkvæmni í mörgu tilliti en kannski á kostnað fæðuöryggis, heldur Svandís áfram. Það hafi verið ódýrara að flytja inn maís frá Úkraínu heldur en að rækta bygg á Íslandi. Og það hafi verið ódýrara að flytja inn áburð úr rússnesku gasi heldur en að framleiða hann hér. „Í þessum efnum þarf að ríkja eitthvert skynsamlegt jafnvægi. Sé farin leið sjálfsþurftarbúskapar lendum við í vandræðum.“
Unnið að viðmiðum innan þjóðaröryggisráðs
Í grein sinni tekur Svandís dæmi af Finnum sem hafi verið öðrum þjóðum framar í að hafa þjóðaröryggi til hliðsjónar við ákvarðanatöku og haldið í sínar stórar korngeymslur og olíutanka. Meira að segja þeir, skrifar Svandís, reikna ekki með að geta verið sjálfum sér nógir um allt í lengri tíma.
Ráðherrann skrifar að yfir þessi mál sé nú farið á vettvangi þjóðaröryggisráðs, þar sem sett verði viðmið um birgðahald á mikilvægum aðföngum, eldsneyti, matvælum og lyfjum. „Þau viðmið þurfa að taka mið af þeim hættum sem eru hér á landi.“
Kanna hagkvæmni áburðarverksmiðju
Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að HS Orka, Fóðurblandan og Kaupfélag Skagfirðinga vinni að undirbúningsrannsókn á hagkvæmni þess að reisa áburðarverksmiðju hér á landi. „Við erum háð óviðráðanlegum aðstæðum í löndunum í kringum okkur og þurfum því að auka sjálfstæði okkar í áburðarframleiðslu,“ er haft eftir Eyjólfi Sigurðssyni, forstjóra Fóðurblöndunar.
Áburðarverksmiðja ríkisins í Gufunesi hóf framleiðslu árið 1954 og allt til ársins 1995 hafði ríkið einkaleyfi á sölu á áburði á Íslandi. Það breyttist með EES-samningnum og innflutningur á áburði varð frjáls. Áburðarverksmiðjan var seld til einkaaðila árið 1999. Starfsemin var lögð niður árið 2001.
Árna Finnssyni, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, líst illa á hugmyndir um að endurvekja framleiðslu á áburði á Íslandi. „Ég held að svoleiðis verksmiðja myndi auka losun gróðurhúsalofttegunda töluvert,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið fyrr á þessu ári.