Áður óþekktur samningur milli Mjólkursamsölunnar (MS) og Kaupfélags Skagfirðinga (KS), sem MS byggði málflutning sinn á fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, hefur nú leitt til þess að nefndin hefur falið Samkeppniseftirlitinu að rannsaka nánar verðlagningu MS á hrámjólk til annars vegar tengdra fyrirtækja og hins vegar keppinauta samstæðunnar. Þetta kemur fram í tillkynningu á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.
Áfrýjunarnefndin hefur því fellt úr gildi úrskurð Samkeppniseftirlitsins frá því í október, sem sektaði MS í lok september um 370 milljónir króna vegna alvarlegra samkeppnislagabrota.
Létu ekki vita af samningnum við rannsókn málsins
Að mati áfrýjunarnefndarinnar er þetta nauðsynlegt þar sem MS lét, við meðferð málsins fyrir Samkeppniseftirlitinu, undir höfuð leggjast að upplýsa stofnunina um áður óþekktan samning við Kaupfélag Skagfirðinga. Að mati nefndarinnar komu ekki fram fullnægjandi skýringar af hálfu MS á framkvæmd samningsins fyrir nefndinni.
Í ákvörðun sinni taldi Samkeppniseftirlitið að MS hefði með ólögmætum hætti mismunað Mjólkurbúinu Kú, áður Mjólku, á meðan hún var í eigu fyrri eiganda, með því að selja fyrirtækinu ógerilsneydda hrámjólk á allt að 17 prósent hærra verði en gilti gagnvart tengdum aðilum, það er Kaupfélagi Skagfirðing a og síðan Mjólku eftir að KS eignaðist félagið. Var þessi mismunun til þess fallin að veikja Mjólku sem keppinaut MS og tengdra félaga.
Viðurlög við því að halda upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu
MS lagði í fyrsta sinn fram tiltekið gagn fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, samning við KS frá 15. júlí 2008. Við rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafði MS aldrei vísað eða greint stofnuninni frá umræddum samningi, þrátt fyrir að hún hefði ítrekað óskað eftir skýringum og gögnum frá MS vegna umræddrar verðlagningar. Í úrskurði áfrýjunarnefnar segir vegna þessa:
„Þótt ekki hafi komið haldbærar skýringar á því hjá áfrýjanda hvers vegna bæði samningurinn hafi ekki verið lagður fram við meðferð málsins hjá Samkeppniseftirlitinu né grundvallargögn um efndir hans og uppgjör hjá áfrýjunarnefndinni telur nefndin sér skylt á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að koma málinu í þann farveg að upplýst sé um þessi atriði. Við munnlegan málflutning skýrðist málið ekki frekar að þessu leyti. Við svo búið telur áfrýjunarnefndin sér ekki unnt að taka efnislega afstöðu til málsins. Verður því ekki komist hjá því að ógilda hinn kærða úrskurð Samkeppniseftirlitsins og leggja fyrir eftirlitið að taka á ný afstöðu til málsins að undangenginni frekari rannsókn og að fengnum sjónarmiðum er varða þýðingu samningsins á milli áfrýjanda og KS frá 15. júlí 2008, uppgjöri á milli aðila hans og efndum á því tímabili sem meint brotastarfsemi stóð yfir.“
Samkeppniseftirlitið mun nú í samræmi við úrskurð áfrýjunarnefndarinnar, taka málið aftur til meðferðar. Þá mun stofnunin sömuleiðis rannsaka af hverju umræddur samningur var ekki lagður fyrir eftirlitið við rannsókn málsins, en viðurlög geta legið við því að halda upplýsingum frá eftirlitinu við rannsókn máls.
„Áfangasigur fyrir Mjólkursamsöluna“
Í fréttatilkynningu sem MS sendi fjölmiðlum nú undir kvöld, fagnar fyrirtækið niðurstöðu áfrýjunarnefnar samkeppnismála „Þetta er vissulega áfangasigur. Málið telst ekki rannsakað til þeirrar niðurstöðu sem kynnt var og 370 milljóna króna sektin verður nú endurgreidd félaginu,“ er haft eftir Einari Sigurðssyni, forstjóra MS í tilkynningunni.
„Áfrýjunarnefndin bendir á að samstarfssamningur Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga hafi ekki komið fram sem gagn í málinu fyrr en á í áfrýjunarferli og að ekki hafi farið fram nægjanleg rannsókn á því hvernig fyrirtækin unnu á grundvelli hans. Mjólkursamsalan áréttar að fyrirtækið veitti á öllum stigum málsins upplýsingar um efni samstarfsins og eðli þess sem byggði á þessum samningi. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála telur samt að þurft hefði að kanna málið betur og vísar því til Samkeppniseftirlitsins. Mjólkursamsalan mun kappkosta að veita sem ítarlegastar upplýsingar í þeirri skoðnum og telur að þeirri rannsókn lokinni verði sýnt verði fyrirtækið hafi ekki brotið samkeppnislög,“ segir forstjóri MS í tilkynningunni.