Kostnaður Reykjavíkurborgar við útgáfu og dreifingu bæklings um uppbyggingu íbúða nam rúmum 13,3 milljónum króna, án virðisaukaskatts, samkvæmt því sem fram kemur í svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Svarið var lagt fram á fundi borgarráðs í gær, og gagnrýndu flokkarnir sem eru í minnihluta í borgarstjórn útgáfu bæklingsins og settu í samhengi við þær niðurskurðaraðgerðir sem nýlega hafa verið samþykktar í borginni.
Bókakaup grunnskóla og félagsmiðstöðvar
„Bæklingar af þessu tagi eru augljóst tækifæri til niðurskurðar sem meirihlutinn hefur vannýtt. Til samanburðar hefur meirihlutinn ákveðið að skera niður bókakaup til bókasafna grunnskólanna sem nemur 9 milljónum árlega. Hefur niðurskurðartillagan vakið mikla reiði meðal skólastjórnenda. Betur hefði farið á því að fjárfesta í bókum fyrir grunnskólabörn heldur en bæklingi með upplýsingum sem vel mætti gera aðgengilegar á vef Reykjavíkurborgar,“ sagði í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks vegna málsins.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands benti svo á að útgáfa ritsins kostaði meira en Reykjavíkurborg sæi fram á að spara með því að loka félagsmiðstöðvum fyrir unglinga 15 mínútum fyrr á næsta ári, en sparnaðurinn við þá aðgerð er áætlaður tæpar 10 milljónir.
„Nær hefði verið að skera niður við gerð þessa rits og tryggja þess í stað að unglingar hafi gott athvarf í formi félagsmiðstöðva en starfsfólk og þau sem koma að starfi miðstöðvanna hafa gagnrýnt þessar aðgerðir um að loka fyrr,“ segir í bókun fulltrúa Sósíalistaflokksins.
64 blaðsíðna rit í 60.500 eintökum
Bæklingur borgarinnar var prentaður í alls 60.500 eintökum, en ritið var 64 blaðsíður. Samkvæmt svari skrifstofu borgarstjóra var ritið unnið af almannatengslafyrirtækinu Athygli, sem hefur unnið sambærileg rit fyrir borgina undanfarin ár. Fyrir sína vinnu fékk Athygli tæpar 5 milljónir króna án vsk., fyrirtækið Ritform sá um hönnun og umbrot fyrir tæpar 1,7 milljónir króna án vsk., Ísafoldarprentsmiðja prentaði bæklingana fyrir 4,4 milljónir án vsk. og Póstdreifing dreifði bæklingunum um borgina fyrir um 2,3 milljónir án vsk.
Í svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara segir að með útgáfu ritsins sé „verið að miðla upplýsingum um mikilvægt málefni fyrir borgarbúa“.
„Reykjavíkurborg hefur um árabil leitast við að greina stöðuna á húsnæðismarkaðnum og hverjar búsetuóskir íbúa borgarinnar, höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar eru enda ríkir samkeppni á milli sveitarfélaga landsins um íbúa. Kannanir sem Reykjavíkurborg hefur látið framkvæma á búsetuóskum hafa jafnan sýnt að íbúar nágrannasveitarfélaga og landsbyggðarinnar hafa áhuga á að búa í höfuðborginni. Allt eru þetta upplýsingar sem eiga erindi til borgarbúa og verður ekki síður ljóst ef málin eru sett í samhengi við núverandi stöðu. Uppfærð Húsnæðisáætlun haustið 2022 telur yfir 26.000 íbúðir en til samanburðar er heildarfjöldi íbúðaeininga yfir 58.000 í borginni í dag,“ segir í svari skrifstofunnar.