Breyta þarf lög um opinber fjármál hér á landi til þess að auka sveigjanleika í ríkisútgjöldum og skuldasöfnun í kreppum, samkvæmt sérfræðingahópi á vegum ASÍ og BSRB. Svokallaðar „afkomubætandi ráðstafanir“ sem ríkisstjórnin hyggst leggja í fælu aftur á móti í sér niðurskurð í kreppu, sem gæti haft slæmar afleiðingar á efnahagslíf landsins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu hópsins um efnahagsleg áhrif COVID-19.
Sveigjanlegri reglur nauðsynlegar
Hópurinn, sem er leiddur af Höllu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra ASÍ, telur ríkisskuldir ekki vera vandamál svo lengi sem vextir eru lægri en hagvöxtur. Í þeim aðstæðum gæti hið opinbera aukið efnahagsumsvif með skuldsetningu og vaxið svo út úr henni með sjálfbærum hætti.
Meiriháttar skuldaaukning ríkisins hefði hins vegar ekki verið möguleg hérlendis ef fjármálareglurnar, sem voru lögfestar í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008, væru enn við gildi. Reglurnar, sem Alþingi ákvað tímabundið að afnema í desember síðastliðnum, kveða meðal annars á um að árlegur halli í rekstri hins opinbera fari ávallt undir 2,5 prósent af landsframleiðslu og að skuldir megi ekki vera hærri en 30 prósent af landsframleiðslu.
Skýrsluhöfundar segja yfirstandandi kreppu gera það ómögulegt að standast skilyrði þessara reglna. Hefði verið haldið fast í fjármálareglurnar hefðu afleiðingarnar orðið „skelfilegar fyrir efnahagslífið og samfélagið í heild,” að mati sérfræðingahópsins.
Meiri niðurskurður ef kreppan verður verri
Hópurinn gagnrýnir einnig svokallaðar afkomubætandi ráðstafanir, sem eru fyrirhugaðar á árunum 2023, 2024 og 2025, en þær fela annað hvort í sér niðurskurð á útgjöldum ríkisins eða skattahækkanir til að bæta afkomu ríkissjóðs og lækka skuldahlutfall hins opinbera. Í skýrslunni segir að þessi áform séu ekki í samræmi við þá sýn til COVID-kreppunnar sem ráðandi sé erlendis, jafnt hjá ríkjum sem alþjóðlegum stofnunum.
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um áður hyggst ríkisstjórnin ráðast í allt að helmingi meiri niðurskurð eða skattahækkanir ef yfirstandandi kreppa reynist þyngri en búist var við. Samkvæmt skýrsluhöfundum eru þetta sömu aðferðir og voru beittar í ýmsum Evrópulöndum í kjölfar fjármálahrunsins og höfðu slæm og langvinn áhrif á fátækt og ójöfnuð.