Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna (VG), sótti leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem fram fór í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel í gær. Ekki eru allir sáttir við orð og gjörðir Katrínar á fundinum í ljósi þess að í stefnuskrá VG um alþjóða- og friðarmál segir að flokkurinn leggi áherslu á að Ísland segi sig úr NATO.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar skrifar í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni að Katrín hafi árum saman „fengið friðarsinna og and-heimsvaldasinna til að kjósa flokkinn út á stefnu um friðsöm samskipti á milli þjóða og fólks, út á stefnu sem hafnaði innrásum og ofbeldi Vesturlanda gagnvart „hinum“.“
Vísar hún í frétt mbl.is um leiðtogafundinn þar sem forsætisráðherrann sagði að Joe Biden forseti Bandaríkjanna væri að koma mjög sterkt inn í Atlantshafsbandalagið eftir undanfarin ár. „Hann kom því mjög skýrt til skila að þetta skipti miklu máli fyrir Bandaríkin, þetta bandalag og samstarf við önnur vestræn ríki, þannig að það var mjög sterk innkoma getum við sagt. Eins var mjög mikið rætt um mikilvægi þess að standa vörð um lýðræði og mannréttindi,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is.
Sólveig Anna segir Katrínu tjá sig „eins og íþrótta-bloggari um rasíska stríðs-æsinga „innkomu“ Bandaríkjaforseta“.
„Auðvitað ætla ég ekki að láta eins og ég sé ægilega sjokkeruð, áfallið sem ég varð fyrir þegar VG og Samfylkingin studdu innrásina í Líbíu kenndi mér lexíuna sem ég þurfti að læra um íslenska real-pólitík og hversu ógeðslega siðlaus hún er, en ég viðurkenni að skömmin sem ég upplifi þegar ég les þetta aumkunarverða orðasalats-röfl er innileg yfir því að hafa raunverulega trúað því að VG-fólk meinti orð af því sem það sagði,“ skrifar hún.
Fjallaði sérstaklega um afvopnunarmál
Katrín sagði við mbl.is að leiðtogafundurinn hefði gengið vel og að margir hefðu haft orð á því hversu ánægjulegt væri að geta komið saman í eigin persónu.
Hún sagði jafnframt að ný netöryggisstefna hefði verið samþykkt ásamt nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem og tillögur Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, sem miðuðu að því að styrkja Atlantshafstengslin og efla pólitískt samstarf til að bandalagið yrði enn betur í stakk búið til að takast á við öryggisáskoranir nútíðar og framtíðar.
Hún sagði að nokkuð hefði verið rætt um áætlanir bandalagsins um að breikka sitt verksvið með því að meðal annars að setja loftslagsmálin á dagskrá, fjalla um viðnámsþol aðildarríkjanna og tilvonandi fund Joes Bidens forseta Bandaríkjanna og Vladimírs Pútíns forseta Rússlands.
„Ég lagði auðvitað áherslu á afvopnunarmál í því samhengi,“ sagði Katrín um sitt innlegg á fundinum. Hún sagðist fagna vilja nýs forseta Bandaríkjanna til að setja þau mál á dagskrá og hvatti hann til dáða í þeim efnum á komandi fundi. Fjallaði hún sérstaklega um kynbundið ofbeldi, loftslagsmál ásamt afvopnunarmálum og lýðræðisgildi í innleggi sínu á leiðtogafundinum, að því er fram kemur í fréttinni.
Leggja áherslu á að Ísland segi sig úr NATO
Vinstri græn hafa frá upphafi verið skýr í afstöðu sinni í friðarmálum en eins og áður segir kemur fram í stefnuskrá flokksins um alþjóða- og friðarmál að VG leggi áherslu á að Ísland segi sig úr NATO. Jafnframt segir að flokkurinn leggi áherslu á að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og undirriti sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við þeim.
„Ekkert er jafn skaðlegt fyrir umhverfið, velferð og heilsu fólks og hernaður. Ísland á ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan. Það á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu á alþjóðavettvangi. Stríð og hernaður leysa engin vandamál, þótt hernaðarsinnar haldi því fram að barist sé fyrir friði og mannréttindum. Auk þess er vígvæðing og hernaður gegndarlaus sóun auðlinda og lífa,“ segir í stefnuskrá VG.
NATO helsta hindrunin í vegi þess að Ísland skrifi undir sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum
Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, sem haldinn var í lok maí síðastliðins, krafðist þess að íslensk stjórnvöld undirrituðu sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum sem öðlaðist gildi 22. janúar síðastliðinn.
„Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga í öllum flokkum styður undirritun sáttmálans og fjölmörg félagasamtök úr öllum geirum hafa hvatt til þess. Við hvetjum stjórnmálaflokka og frambjóðendur til Alþingis til að taka undirritun sáttmálans upp fyrir næstu kosningar svo Ísland geti gengið í lið með þeim 54 löndum sem hafa bannað kjarnorkuvopn og hverskyns flutning á þeim, eða stuðning við framleiðslu þeirra og dreifingu. Í því samhengi er minnt á að Nató er kjarnorkubandalag og helsta hindrunin í vegi þess að Ísland skrifi undir sáttmálann,“ segir í ályktuninni.
Margt í íslenskri pólitík einungis táknrænt
Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar gerði fundinn einnig að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í morgun.
„Les um það að Katrín Jakobsdóttir sé á NATO-fundi og meðal erinda hennar þar sé að funda með Ursulu von der Leyen til að biðja hana að gleyma ekki Íslandi,“ segir hann og vísar í frétt RÚV um málið þar sem fram kemur að Katrín hafi notað tækifærið til að minna á mikilvægi þess að sem EFTA-ríki væri Ísland aðili að EES-samningnum og mjög mikilvægt væri að gæta hagsmuna Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu.
Segist hann ekki efast um að Katrín sé landi og þjóð til mikils sóma þar ytra eins og endranær en „óneitanlega verður manni hugsað til þess hvort Nató-andstaða flokksins hennar sé meira táknræn en raunveruleg“.
Þingmaðurinn bendir á að margt í íslenskri pólitík sé einungis táknrænt og til þess að tryggja atkvæði – og snúist síður um raunveruleg úrlausnarefni fyrir raunverulegt fólk í raunveruleikanum. „Báknið er tákn, bæði hjá Sjöllum og Miðflokki svo dæmi sé nefnt. Manni finnst stundum að stjórnmálin mættu snúast meira um lífskjör almennings.“
Spyr hann hvort NATO-andstaðan hjá VG sé kannski fyrst og fremst táknræn og til þess að undirstrika sérstöðu sína gagnvart Samfylkingunni í augum kjósenda. „Eða finnst fólki það líklegt að VG ætli sér í raun og veru að standa fyrir útgöngu úr Nató?“
Les um það að Katrín Jakobsdóttir sé á Nató-fundi og meðal erinda hennar þar sé að funda með Ursulu von der Leyen til að...
Posted by Guðmundur Andri Thorsson on Tuesday, June 15, 2021