"Okkur finnst að með þessum gjörningi sé Vísir búinn að uppfylla samfélagslegar skyldur sínar eins og kostur er." Þessi ummæli voru höfð eftir Pétri Hafsteini Pálssyni framkvæmdastjóra fiskvinnslufyrirtækisins Vísis, í frétt sem birtist á Vísi í gær. Ummælin lét Pétur Hafsteinn falla í tengslum við yfirtöku Búlandstinds, félags í eigu heimamanna á Djúpavogi, á fiskvinnslu Vísis á staðnum.
Eins og kunnugt er hefur Vísir ákveðið að hætta fiskvinnslu á Djúpavogi um áramótin, en í vor lýsti fyrirtækið því yfir að það myndi halda uppi vinnslu á staðnum í allt að ár. Brotthvarf Vísis frá staðnum raungerðist því fyrr en vonir heimamanna stóðu til. Með Vísi hverfa rúmlega 3000 tonn af aflaheimildum frá Djúpavogi, en árlega hafa verið unnin um 4000 tonn í bænum. Mótvægisaðgerðir stjórnvalda hljóða upp á 588 tonn af aflaheimildum, það er 400 tonna aflamark frá Byggðastofnun og 188 tonn af hefðbundnum byggðakvóta, sem mest getur orðið 300 tonn.
Ótímabærar fullyrðingar um uppfylltar samfélagslegar skyldur
Andrés Skúlason, oddiviti Djúpavogshrepps, furðar sig á áðurnefndum fullyrðingum framkvæmdastjóra Vísis, og segir þær ótímabærar. "Ég veit svo sem ekki nákvæmlega hvað merkingu viðkomandi vill leggja í orðin samfélagslegar skyldur, en það sem ég veit er að fyrirtækið er að fara með alla vinnsluna af svæðinu og um níutíu prósent af aflaheimildum frá staðnum. Þá eru 25 manns þegar búnir að missa vinnuna og að þeim meðtöldum má kannski ætla að séu farnir allt að fimmtíu manns í burtu og langflestir til Grindavíkur. Það náttúrulega sér hver heilvita maður að slíkar aðgerðir hafa ekki jákvæð áhrif á samfélagið."
Andrés fagnar því að tekist hafi að koma félagi á laggirnar undir merkjum Búlandstinds, sem taki við vinnslu Vísis á Djúpavogi, og vonar að þar með séu þrjátíu störf þar tryggð til frambúðar og hægt verði að auka umsvif fyrirtækisins. "Það breytir því ekki að við erum ekki búin að sjá áhrifin af brotthvarfi Vísis, þau munu ráðast á komandi vetri. Þá verður fyrst hægt að sjá að hve miklu leyti fyrirtækið uppfyllti sínar samfélagslegar skyldur," segir oddviti Djúpavogshrepps í samtali við Kjarnann.
Óhress með mótvægisaðgerðir stjórnvalda
Andrés gagnrýnir mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna brotthvarfs Vísis. "Við erum ekki sátt með þær úthlutanir sem við höfum fengið í formi byggðakvóta, enda taka þær ekkert mið af því ástandi sem uppi er. Svo bitu þeir nú höfuðið af skömminni með því að úthluta okkur 194 tonnum og senda okkur svo leiðréttingaskjal nokkrum dögum seinna þar sem þeir lækkuðu úthlutunina niður í 188 tonn. Á meðan er maður að horfa á önnur sveitarfélög fá fullar úthlutanir, eða 300 tonn, sem ég get fullyrt að hafa ekkert með þessar aflaheimildir að gera. Það eru ekki byggðarlög sem hafa orðið fyrir áfalli í sjávarútvegi."
Andrés segir brotthvarf Vísis hafa komið róti á samfélagið. "Við erum 470 manna samfélag og það sér hver maður að fimmtíu manns í burtu getur ekki verið jákvæð niðurstaða. Hér er hins vegar engan uppgjafatón að finna frekar en fyrri daginn, það er ekkert í boði að gefast upp heldur ætla menn eins og áður að snúa bökum saman og vinna úr þeirri stöðu sem er uppi."