Allir sem á annað borð þekkja til Dana vita að þeir eru miklir matmenn. Kjötbollur og purusteik með rauðkáli, steikt rauðspretta, hakkebøf, smurbrauð og pylsur, ásamt bjór og snafs. Danskast af öllu dönsku er stundum sagt. Í þessari upptalningu vantar eitt: ost. Danir eru miklar ostaætur, eins og reyndar margar aðrar þjóðir, og það þykir óburðug verslun sem hefur ekki að minnsta kosti 30 mismunandi tegundir af osti á boðstólum.
Eitt er það sem greinir danska ostinn frá ostum í mörgum öðrum löndum. Tvennt væri kannski réttara að segja: lyktin og bragðið. Margir sem ekki þekkja til fýla grön þegar umbúðir um danskan ostbita eru opnaðar. Ostalyktinni sem þá sleppur út er iðulega líkt við óhreina sokka, aðrir kalla þetta einfaldlega fótalykt. Ostaaðdáendur lygna hins vegar aftur augunum þegar ilmurinn berst að vitum og fá vatn í munninn við tilhugsunina um að bragða á góðgætinu. Því kröftugri ilmur því betra bragð segja ostaunnendur.
Feitur ostur eða magur?
Danir hafa ekki frekar en margar aðrar þjóðir farið varhluta af hinni svokölluðu heilsufarsumræðu sem hefur verið áberandi hin síðari ár. Sú umræða tengist þeirri staðreynd að sífellt fleira fólk um víða veröld, einkum þó á Vesturlöndum, er alltof þungt. Þarna er danska þjóðin ekki undanskilin. Ástæður þessa aukna meðalþunga eru ugglaust margar, sem kannski verður best lýst með tveimur orðum: breyttur lífsstíll. Þetta hefur gerst þrátt fyrir aukið úrval fitusnauðari matvæla og ráðgjöf sérfræðinga. Osturinn er þarna ekki undanskilinn og danskir ostaframleiðendur hafa á undanförnum árum sett á markaðinn margs konar fituminni osta en áður voru í boði.
Léttmjólk og létt hitt og þetta en feitur ostur
Mjólkurneysla Dana hefur breyst mikið á síðustu árum. Sala á léttmjólk og undanrennu hefur aukist mikið en dregist saman á hinni hefðbundnu nýmjólk sem Danir kalla sødmælk. Sömu sögu er að segja um jógúrt og skyldar vörur. Skyrið, sem framleitt er að íslenskri fyrirmynd, nýtur æ meiri vinsælda hjá Dönum sem segja aðspurðir að það sé bæði gott og hollt og nefna lágt fituinnihald.
Þessi áhugi og aukin neysla á fitusnauðum matvælum nær hinsvegar ekki til ostsins. Nær allar tilraunir ostaframleiðenda, og þær eru margar, til að fá Dani til að kaupa fitusnauðan ost hafa misheppnast. Hver létt-tegundin af annarri hefur litið dagsins ljós á undanförnum árum með tilheyrandi kynningarherferð í fjölmiðlum. En sama hvað reynt er, Danir fúlsa við fituminni ostinum en smella áfram þeim feita ofan á rúgbrauðið og súrdeigsbollurnar. Allt tal um næringargildi, of mörg kíló og kólesteról, láta þeir sem vind um eyru þjóta þegar osturinn er annars vegar. Og því eldri og sterkari þeim mun betri og vinsælli meðal Dana.
Gamli osturinn er hollastur
Í nýrri rannsókn á vegum Hafnarháskóla koma fram niðurstöður sem danskir ostaunnendur kunna líklega vel að meta. Rannsóknin leiddi í ljós að gamall cheddar ostur (látinn lagerast í 24 mánuði) virðist mun hollari en ungur samskonar ostur. Vísindamennirnir segja að full ástæða sé til að halda að sama gildi um annars konar osta. Það er semsagt tíminn sem osturinn er látinn bíða áður en hann er seldur sem öllu skiptir.
Rannsókn dönsku vísindamannanna beindist ekki að samanburði á mögrum og feitum osti en á síðustu árum hafa verið gerðar margar rannsóknir, þar á meðal ein dönsk, sem sýna fram á að feitur ostur er miklu hollari en áður var talið. Danskir ostaunnendur geta því glaðst þótt líklega gildi hið sígilda í þessum efnum eins og öðrum: allt er best í hófi.