Gamalt handrit að Stjörnustríðsmyndum George Lucas, sem kom nýlega í leitirnar, svarar einni stærstu ósvöruðu spurningu þríleiksins; um hvor hafi átt að skjóta fyrst, Han Solo eða Greedo. Fréttamiðillinn TIME greinir frá þessu áhugaverða máli.
Í fyrstu Stjörnustríðsmyndinni, Star Wars Episode IV: A New Hope, sem frumsýnd var árið 1977, var smyglarinn Han Solo, í túlkun Harrison Ford, nýbúinn að gera samning við Loga Geimgengil og Obi-Wan Kenobi í bænum alræmda Mos Eisley á Tatooine, heimaplánetu Loga, um að flytja þá, ásamt C3PO og R2D2, á Fálkanum til plánetunnar Alderaan, þegar hausaveiðarinn Greedo verður á vegi hans. Greedo var þar í erindagjörðum á vegum Jabba the Hutt, glæpamanns sem átti ýmislegt sökótt við Solo eftir misheppnaða smyglferð.
Í upprunalegu Star Wars myndinni, sem frumsýnd var árið 1977, ræðast tvímenningarnir stuttlega við í bás á bar í Mos Eisley eða þar til Han Solo skýtur hausaveiðarann fyrirvaralaust undir borð sem þeir sátu við.
Þannig var sagan í tuttugu ár, eða allt þar til árið 1997 þegar George Lucas ákvað að gefa Star Wars myndirnar aftur út með stafrænum breytingum, sem voru flestar ef ekki allar ekki til bóta. Á meðal þess sem Lucas breytti var áðurnefnt stefnumót Solo og Greedo, og í „uppfærðu“ útgáfunni skýtur Greedo fyrst að Solo, áður en smyglarinn fellir hausaveiðarann. Með breytingunni var kaldrifjuðum morðingja breytt í mann sem getur þakkað ótrúlegri óhittni alræmds hausaveiðara, af eins meters færi, líf sitt.
Umrædd breyting var fordæmd harðlega á meðal aðdáaenda Stjörnustríðsmyndanna, og þá ekki síst á meðal dyggra stuðningsmanna Han Solo. Samkvæmt fyrrgreindu handriti að upprunalega þríleiknum, sem fannst fyrir tilviljun í vísindaskáldsagnasafni bókasafns í Kanada nýverið, er öllum vafa um atvikið eytt. Han Solo var fyrri til að taka í gikkinn. Lucasfilm, sem á réttinn að Star Wars vörumerkinu, hefur sagt að um endurgerð af gömlu handriti að fyrstu Stjörnustríðsmyndinni að ræða, sem aðdáandi myndanna hafi trúlega skrifað.
Handritið, sem kom nýlega fyrir sjónir almennings, er merkt sem fjórða uppkast og dagsett 15. mars árið 1976. Þar heitir fyrsta Stjörnustríðsmyndin: Star Wars: Saga I, og Luke Skywalker (Logi Geimgengill) heitir því skuggalega nafni Luke Starkiller.
Margir aðdáendur Stjörnustríðsmyndanna fagna því að nú hafi loks verið staðfest að Han Solo skaut Greedo með köldu blóði, en fréttirnar eru sömuleiðis síst til þess fallnar að bæta laskað samband milli skapara myndanna og aðdáenda þeirra.
Atriðið fræga og umdeilda, um aðdraganda og samskipti Han Solo og Greedo, má sjá hér að neðan.